Fjarskiptasamband á Hólmavík og í nærsveitum

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 15:10:30 (6324)

2002-03-20 15:10:30# 127. lþ. 101.7 fundur 571. mál: #A fjarskiptasamband á Hólmavík og í nærsveitum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þó þau væru ekki á þá lund sem ég hefði viljað heyra, þ.e. að ekki skuli hægt að bæta með skipulegum hætti fjarskiptasambandið á þessu svæði um Norður-Strandir, Hólmavík og Steingrímsfjarðarheiði, t.d. GSM-símasambandið. Mér er kunnugt um að meira að segja á Hólmavík, þar sem öryggismálin byggjast einmitt á GSM-símasambandinu, helst ekki samband innan svæðisins, þ.e. það nær afar stutt út fyrir bæinn. Það er afar brýnt að fjarskiptasamband gegnum GSM-símakerfið komist á. Ég óska eftir því við hæstv. ráðherra sinni því markvissar en hann kvaðst gera í ræðu sinni áðan.

Ég vil og vekja athygli á því sem hæstv. ráðherra sagði um aukna tækni sem væri að koma inn í fjarskiptakerfið, t.d. TETRA-tæknina. Hún hjálpar lítið ef hún á í höfuðdráttum að einskorðast við þéttbýlustu svæðin, greiðfærustu svæðin á suðvesturhorninu og kannski um miðsvæðið Norðanlands. Það verður að taka á og tryggja öruggt og gott fjarskiptasamband og öryggi í fjarskiptum, líka í þeim byggðum sem ekki eru á þéttbýlustu svæðunum.

Ég tel því, virðulegur forseti, afar brýnt að hér verði tekið myndarlega á og stefnan mörkuð til að tryggja bæði fjarskiptasamband og öryggi norður um Strandir og reyndar víðar um land þar sem eins er ástatt.