Kræklingarækt

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 15:14:56 (6326)

2002-03-20 15:14:56# 127. lþ. 101.8 fundur 513. mál: #A kræklingarækt# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KVM
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[15:14]

Fyrirspyrjandi (Karl V. Matthíasson):

Herra forseti. Mikið hefur verið rætt um byggðamál og nýsköpun í landinu undanfarin ár. Hefur það ekki síst verið vegna þeirrar þróunar að fjöldi manns hefur flutt af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Til þess að sporna við þessari miklu byggðaröskun hafa menn leitað uppi ný atvinnutækifæri og möguleika á landsbyggðinni en það hefur ekki alltaf gefist sem best.

Það er mjög eðlilegt, herra forseti, að menn reyni að notfæra sér þá möguleika sem felast í náttúru staðanna og umhverfi. Ég tel að kræklingarækt geti verið álitlegur kostur fyrir okkur Íslendinga. Kræklingur er mjög vinsæl matvara víða um heim og hefur neysla á kræklingi og skelfiski aukist mjög í heiminum hin síðari ár. Nú er töluvert framleitt af kræklingi í heiminum, talað er um að það séu um 1,6 millj. tonna. Því vakna spurningar, herra forseti, um hvort við ættum ekki að taka okkur tak í þessu máli svo um munar.

Að vísu hefur verið dálítil starfsemi á vegum opinberra aðila í þessa veru og hefur verið skrifuð skýrsla um kræklingarækt, sem er ágæt, um ýmsa möguleika sem hún gefur. Þar kemur t.d. fram að við getum ekki búist við því að flytja mikið út af ferskum kræklingi eins og gert hefur verið heldur unnum og mundi það þá skapa enn meiri atvinnu.

Það er hægt að tala mjög mikið um þetta mál en ég er með fjórar spurningar til hæstv. sjútvrh.:

1. Hversu víða er kræklingarækt stunduð á Íslandi og í hve miklum mæli?

2. Hvernig hefur kræklingarækt verið styrkt og efld af opinberum aðilum?

3. Hver er framtíðarsýn sjávarútvegsráðuneytisins í þessum efnum?

4. Hafa opinberir aðilar áform um að efla á einhvern hátt kræklingarækt við strendur landsins?

Ég vil vekja athygli á því í lokin, herra forseti, að t.d. á Írlandi eru 50% fjárfestingarstyrkir og lán með lágum vöxtum til greinarinnar. Á Nýja-Sjálandi þarf greinin ekki að greiða nema 30% af eftirliti vegna eitraðra þörunga. Svona er þetta víða þar sem um nýsköpun er að ræða. Ég held að við ættum að taka okkur tak og gera mikið á þessu sviði.