Kræklingarækt

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 15:18:11 (6327)

2002-03-20 15:18:11# 127. lþ. 101.8 fundur 513. mál: #A kræklingarækt# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda, Karls V. Matthíassonar, er í fjórum liðum:

,,1. Hversu víða er kræklingarækt stunduð á Íslandi og í hve miklum mæli?``

Kræklingarækt er nú stunduð á 11 stöðum við landið. Formlega hafa verið stofnuð fimm fyrirtæki sem hafa kræklingarækt að markmiði. Þau eru Sæblóm ehf. sem er með tilraunarækt í Hvalfirði, Kolgrafarfirði og Hofsstaðavogi, Hlein ehf. í Arnarfirði, Norðurskel ehf. og Marbendill ehf. í Eyjafirði og Hafskel ehf. í Mjóafirði og Hamarsfirði. Auk þess er stunduð lítils háttar kræklingarækt við Bjarteyjarsand í Hvalfirði, í Kjálkafirði og Hestfirði.

Sumarið 2001 voru settir út um 50 km af söfnurum en árið 2000 um 60 km. Ýmsir byrjunarörðugleikar hafa komið upp og er ekki gert ráð fyrir mikilli uppskeru af árgangi 2000 eða í mesta lagi nokkrum tugum tonna á árunum 2002 og 2003. Ef vel gengur með ræktunina mun árgangur 2001 að hámarki gefa af sér um 250 tonn af markaðshæfum kræklingi og á árunum 2003 og 2004.

,,2. Hvernig hefur kræklingarækt verið styrkt og efld af opinberum aðilum?``

Á árinu 1999 styrkti sjútvrn. eitt áðurtalinna fyrirtækja um 1 millj. kr. Veiðimálastofnun hefur fengið framlag á fjárlögum frá árinu 2000. Fyrsta árið fékk stofnunin 3 milljónir en 4 milljónir síðustu tvö árin. Kræklingaræktendur hafa auk þess sótt um beina styrki og fengið framlög m.a. frá Impru og Byggðastofnun.

,,3. Hver er framtíðarsýn sjávarútvegsráðuneytisins í þessum efnum?``

Með samþykkt fyrirliggjandi frv. um eldi nytjastofna sjávar er lagarammi fyrir afkomu sjútvrn. styrktur og tækifæri til markvissrar stefnumótunar aukin, ekki hvað síst í gegnum fiskeldisnefnd.

,,4. Hafa opinberir aðilar áform um að efla á einhvern hátt kræklingarækt við strendur landsins?``

Nú stendur fyrir dyrum að kanna heilnæmi þeirra svæða sem til greina koma fyrir þessa starfsemi. Aðkoma opinberra aðila hlýtur að markast af niðurstöðu þeirrar athugunar og því hvernig þær tilraunir ganga sem nú standa yfir í atvinnugreininni til arðsams reksturs.