Aukið lögreglueftirlit

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 15:26:43 (6331)

2002-03-20 15:26:43# 127. lþ. 101.9 fundur 557. mál: #A aukið lögreglueftirlit# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh. með hvaða hætti ráðherrann ætli að kanna hvort þörf sé á frekara lögreglueftirliti í íbúðarhverfum Reykjavíkur og hvort skoðun muni jafnframt fara fram í nágrannabæjum Reykjavíkur og hvenær niðurstaða muni liggja fyrir.

Ég vil sérstaklega taka fram í upphafi máls míns að á liðnum missirum höfum við þingmenn Samfylkingarinnar talað fyrir daufum eyrum um málefni lögreglunnar hér á Alþingi. Það hefur hins vegar verið eitt af stóru málunum sem tekin eru fyrir í heimsóknum þingmanna Reykjaness til sveitarstjórna hve löggæslu er þröngur stakkur skorinn og við höfum oft sagt frá því. Fólk er órólegt og beinlínis hefur verið hrópað á úrræði.

Í haust heimsóttum við lögreglustöðvar í nágrannabæjum Reykjavíkur og það voru fyrst við þingmenn Samfylkingarinnar, og það var þungt í lögreglumönnum vegna skilningsleysis í garð starfa þeirra. Á fjárlögum fengust þó heimildir fyrir einu og hálfu stöðugildi samtals á landinu öllu. Heila stöðugildið fór í Kópavog, það hálfa á Blönduós. Í Kópavogi búa, hæstv. forseti, hátt í 25 þúsund manns. Þar hefur fjöldi lögreglumanna á íbúa verið hlutfallslega langlægstur. Þrátt fyrir einn í viðbót er enn þá aðeins unnt að manna einn bíl og það gengur ekki. Og af því að ég tek Kópavog sem dæmi þá er ástæða til að nefna að þar er mikil uppbygging og síaukin umsvif og sérstaklega hafa þau miklu umsvif sem þar hafa orðið skipt máli líka fyrir löggæsluna. Þess vegna er hann gott dæmi.

Ég hef nýverið átt samtöl sem leiða það í ljós að það er engin leið við þessar aðstæður að vera með grenndarlöggæslu í hverfunum. Sömu sögu fáum við í heimsóknum okkar á aðrar lögreglustöðvar.

Það gerðist svo, herra forseti, að tekið var viðtal við hæstv. dómsmrh. um öryggi borgaranna og var það í framhaldi af mjög alvarlegum atburði sem ég ætla ekki að gera að umtalsefni hér, enda getur það gerst alveg óháð því hvort mikið er veitt til löggæslu eða ekki. Þá upplýsti hæstv. ráðherra að hún teldi ástæðu til að kanna hvort meiri þörf sé á frekara lögreglueftirliti í íbúðarhverfum. Mér þótti þetta mikil og athyglisverð tíðindi eftir það sem hér hefur þegar verið rakið og þess vegna spyr ég hæstv. dómsmrh.: Hvernig er staða mála með tilliti til þess sem hér er rakið og sérstaklega hvernig á að meta þörf á frekara lögreglueftirliti í kjölfar þeirrar skoðunar og hvenær mun sú niðurstaða liggja fyrir?