Aukið lögreglueftirlit

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 15:29:35 (6332)

2002-03-20 15:29:35# 127. lþ. 101.9 fundur 557. mál: #A aukið lögreglueftirlit# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrirspurnina og um leið áhugann á lögreglumálum. Það er vissulega brýnt í öllum tilvikum að lögreglan sýni að hún sé í stakk búin til að takast á við alvarleg afbrot. Það er einnig vel skiljanlegt að óöryggi komi upp þegar alvarleg afbrot eru framin í íbúðarhverfum en sem betur fer eru slíkir atburðir sjaldgæfir.

Til svars við þessum fyrirspurnum hv. þm. get ég sagt að þörfin á lögreglueftirliti í umdæmi lögreglustjóra og þar á meðal í íbúðarhverfum er könnuð og metin með ýmsum hætti. Má þar nefna að heilmikil söfnun tölfræðiupplýsinga fer fram á vegum lögregluembætta og ríkislögreglustjóraembættisins og upplýsingar sem fram koma með þeim hætti gefa til kynna hvar æskilegt sé að efla lögreglueftirlit í ýmsum myndum. Á grundvelli þeirra upplýsinga hefur lögreglan verið efld, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu.

Ég get nefnt sem dæmi að á síðasta ári var fjárveiting vegna átaks í fíkniefnalöggæslu hækkuð umtalsvert og var þá bætt við fimm lögreglumönnum í Reykjavík sem sérstaklega sinna götueftirliti. Hefur starf þessa hóps skilað góðum árangri.

Einnig er upplýsingum safnað um umferð, umferðarálag og umferðaróhöpp og löggæslu stýrt í samræmi við þær upplýsingar, þar á meðal í íbúðarhverfum. Þannig er reynt að fylgjast náið með stöðum þar sem umferðaróhöpp eru tíð eða þegar önnur brýn þörf skapast eins og t.d. þegar skólar hefjast á haustin. Slík stjórnun og mat á þörf á löggæslu er ekki bundin við Reykjavík heldur eru þessar aðferðir viðhafðar í einni eða annarri mynd hjá öllum lögreglustjórum en þó einkum í stærstu lögregluliðunum.

Í þessu sambandi má einnig nefna í ljósi þess að fyrirspurnin snýr sérstaklega að eflingu lögreglueftirlits í íbúðarhverfum í Reykjavík að ég er mjög fylgjandi eflingu grenndarlöggæslu í íbúðarhverfum. Fyrirkomulag þetta hefur verið reynt með góðum árangri hjá lögreglunni í Reykjavík. Skal þar sérstaklega nefnt hið ágæta fyrirkomulag sem er á grenndarlöggæslu í Grafarvogi og einnig í Breiðholti.

Tilraunaverkefni var sett í gang í Bústaðahverfi fyrir fáum árum og gaf það góða raun. Gott samstarf lögreglu og viðkomandi sveitarstjórnar er mjög mikilvægt og má nefna að slíkt samstarf hefur reynst ákaflega vel í Grafarvogi.

Ég veit til þess að sýslumaðurinn í Kópavogi er að hefja samstarf við bæjaryfirvöld um fíkniefnalöggæslu og eftirlit en jafnframt þarf að huga að fjölgun lögreglumanna í Kópavogi til samræmis við mikla fjölgun íbúa í bæjarfélaginu. Fleiri lögreglustjórar eru í nánu samstarfi við sveitarstjórnir í einni eða annarri mynd og mörg góð dæmi má nefna þar um.

Heildarmat á því hvort efla skuli lögreglu er unnið í ráðuneytinu á grundvelli ýmissa upplýsinga, t.d. tölfræðiupplýsinga um þróun afbrota, fjölgun íbúa og fleira, einkum í tengslum við fjárlagavinnu hvers árs. Með hliðsjón af þeirri vinnu hefur lögreglumönnum verið fjölgað umtalsvert á undanförnum árum á fjárlögum, bæði til að mæta auknu álagi almennt og einnig til að takast á við ákveðin verkefni eins og t.d. fíkniefnalöggæslu. Tillögur um eflingu löggæslu koma því árlega til umfjöllunar á Alþingi.

Það er hagsmunamál okkar allra að löggæslan sé öflug og sýnileg. Ég hef í starfi mínu lagt áherslu á það og reynt með öllum tiltækum ráðum að vinna að því t.d. með fjölgun lögreglumanna. En fjölgun lögreglumanna er hins vegar ekki eina lausnin til að efla og bæta löggæsluna. Efling grunnnáms í Lögregluskóla ríkisins er önnur leið sem og efling framhaldsmenntunar og sérhæfingar lögreglumanna. Á undanförnum árum hefur mikið og gott starf verið unnið í Lögregluskólanum sem þegar er farið að skila okkur öflugri og betri lögreglumönnum og um leið fleiri menntuðum lögreglumönnum.

Fjarskiptum lögreglunnar á suðvesturhorni landsins hefur einnig verið umbylt með uppsetningu sérstakrar fjarskiptamiðstöðvar og svokallaðs TETRA-kerfis sem þjónar lögreglu- og slökkviliðum á svæðinu. Hefur þetta kerfi skilað góðum árangri og þar á meðal eflingu á löggæslu í þeim umdæmum sem það nær til og hingað hafa komið hópar frá öðrum löndum til að kynna sér hvernig við förum að á þessu sviði. Það er stefna mín að á næstu árum verði öll lögreglulið á landinu tengd þessu kerfi sem mun fela í sér umtalsverða eflingu löggæslu á landsbyggðinni.

Það er að mörgu að hyggja á stóru heimili og menn þurfa að leita allra leiða til þess að efla enn frekar löggæslu en gæta um leið að því að vel sér farið með skattpeninga. Ég get upplýst hér að ég hef sett í gang vinnu í dómsmrn. til að leggja mat á hvernig unnt er að efla löggæslu með því að nýta betur það fjármagn sem veitt er til löggæslu, m.a. með nánari samvinnu lögregluliða. Bind ég vonir við að sú vinna muni skila árangri sem geti leitt til enn frekari eflingar löggæslu og þá sérstaklega grenndarlöggæslu. Í stuttu máli má því segja að könnun á því hvort efla þurfi lögreglueftirlit í íbúðarhverfum eða annars staðar er stöðugt í gangi og við niðurstöðum af þeirri könnun er brugðist með viðeigandi hætti af hálfu þess lögreglustjóra sem í hlut á eins og ég hef hér lýst.