Aukið lögreglueftirlit

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 15:34:42 (6333)

2002-03-20 15:34:42# 127. lþ. 101.9 fundur 557. mál: #A aukið lögreglueftirlit# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[15:34]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég var afskaplega spennt að heyra hvort eitthvert innihald yrði í þessu svari eða hvort viðbrögðin í viðtalinu sem ég vísaði til væru fyrst og fremst kurteisishjal á ögurstund og ég ætla bara að segja það hér að ég er vonsvikin yfir þessu svari. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að lögreglan stendur sig með afbrigðum vel við erfiðar aðstæður og af því að ég vísaði á þann stað þar sem ég þekki mjög vel til veit ég að vaktir geta verið óhemjuerfiðar, útkall ofan í útkall, og þegar bara einn bíll er til ráðstöfunar í stóru umdæmi er öllum ljóst hvernig vaktirnar eru.

Nú hefur það líka gerst að hæstv. ráðherra hefur sett á laggirnar nýja umferðaröryggisáætlun sem miðar að því að umferðarslysum fækki um 40%. Eitt af því sem þar er nefnt er að löggæsla verði styrkt og hugað verði að öruggari vegum, götum og öðrum umferðarmannvirkjum.

Í mínu kjördæmi er talað um að varla sjáist lengur lögreglubíll á vegum, og eftirliti með umferðarhraða eða hvernig umferð og akstri er hagað er ábótavant. En ég tók eftir því í fréttum í dag að gæsla hafði verið á vegum í Kópavogi og á annan tug bíla voru teknir fyrir brot á umferðarreglum.

Það er gott að setja á laggirnar tilraunaverkefni ef þau eiga að leiða til þess að þeim verði hrint í framkvæmd annars staðar ef þau gefa góða raun. Ég hjó eftir því, herra forseti, að sýslumaðurinn í Kópavogi --- ég er ekki að tala um lögregluna í Kópavogi en það er gott fyrir mig að taka hana sem dæmi vegna þess að það er samhljómur á öllum lögreglustöðvunum í okkar eigin kjördæmi --- ætlar að skoða þessi mál með bæjaryfirvöldum sem þýðir að leiðin sem á að fara sé að fá bæjaryfirvöld til að koma inn með kostun á stöðugildum eða eitthvað slíkt.