Vistvænt eldsneyti

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 15:39:21 (6335)

2002-03-20 15:39:21# 127. lþ. 101.10 fundur 585. mál: #A vistvænt eldsneyti# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég beini spurningu minni til hæstv. iðnrh.: Á hvern hátt styður iðnrn. rannsóknir á að nýta afgas frá stóriðju ásamt vetni til framleiðslu vistvæns eldsneytis? Hyggst ráðherra kanna mögulega samvinnu við stóriðjufyrirtækin í landinu á þessu sviði?

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að seinni hluti fyrirspurnarinnar er e.t.v. ótímabær miðað við þróun mála hjá Norsk Hydro og miðað við yfirlýsingu hæstv. iðnrh. í dag. Skoðun mín er núna að það séu frekar minni líkur en meiri að Norsk Hydro komi hingað svo fyrirspurnin beinist væntanlega að almennri stefnumörkun í ráðuneytinu.

Framtíðin er vetnið og vetnisbílar en það er erfitt að leysa vetnið sem eldsneyti fyrir bifreiðar og þeir strætisvagnar sem bráðlega munu koma hingað munu flytja dagskammtinn sinn í stórum hylkjum á þaki strætisvagnanna. Af þeim sem ætla sér að fara í viðamikla framleiðslu og þar á meðal eru margir stærstu bílaframleiðendur heims, bæði vestan hafs og austan, er hins vegar talið álitlegt að geyma vetni í einkabílum og fiskiskipum bundið í metanóli eða málmsöltum. Athuganir hafa farið fram við Háskóla Íslands og á öðrum rannsóknastofnunum á þeim möguleika að nýta afgas frá stóriðju á Íslandi ásamt vetni til að framleiða metanól sem nota mætti í stað innflutts eldsneytis til að knýja bíla- og fiskiskipaflota landsmanna.

Þetta er ákaflega áhugavert rannsóknarverkefni þar sem fræðilega mætti, með því nýta allt afgas frá núverandi stóriðju ásamt viðbótarvetni, framleiða metanól sem gæti komið í stað nær alls þess eldsneytis sem bíla- og fiskiskipaflotinn notar nú fyrir utan að útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi mundi minnka um helming frá því sem nú er. Við erum því að tala um að stóriðjan yrði umhverfisvæn. Þarna eru stórkostlegir möguleikar.

Þegar til stendur að semja við erlenda aðila um nýtt álver hérlendis er eðlilegt að tekið sé inn í samningana að viðkomandi séu tilbúnir að nýta afgas og að gera það sem þarf til að það sé unnt ef rannsóknir leiða slíkt í ljós, og jafnframt að fara í viðræður við þá aðila sem þegar starfa hér. Mér er kunnugt um þær tilraunir sem fara nú fram í samvinnu við málmblendið á Vesturlandi.

Allar rannsóknir í þessum efnum eru mjög þýðingarmiklar og nú fýsir mig að vita: Hvað hyggst ráðherrann gera? Hvaða stuðningur hefur verið við þessar rannsóknir? Mun ráðherrann beita sér fyrir því að leita samninga til þess að svo geti farið?