Vistvænt eldsneyti

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 15:42:31 (6336)

2002-03-20 15:42:31# 127. lþ. 101.10 fundur 585. mál: #A vistvænt eldsneyti# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Áhugi manna víða um veröld fer vaxandi á rannsóknum á vetni sem orkubera framtíðarinnar. Ber þar einna hæst nýlega ákvörðun Bandaríkjastjórnar um aukna áherslu á rannsóknir í þessu skyni. Mörg vandamál er tengjast notkun vetnis sem eldsneytis eru þó enn óleyst og hagnýtar tilraunir á notkun vetnis fyrir bifreiðar hafa aukist mjög að undanförnu.

Eins og kunnugt er hefur íslenskt fyrirtæki í eigu íslenskra aðila og erlendra stórfyrirtækja, Íslensk nýorka, undirbúið tilraunaverkefni hér á landi í notkun vetnis á efnarafala er knýja munu strætisvagna í Reykjavík á árunum 2003--2004. Ekki er búist við að bein notkun vetnis sem orkubera í bifreiðar eða skipaflota muni verða almenn fyrr en eftir tvo til þrjá áratugi og mun sú breyting á orkugjafa og orkubera þess vegna taka alllangan tíma.

Á fyrirsjáanlegum umbreytingatíma frá hefðbundnu eldsneyti yfir í vetni hafa menn hafið athuganir á að nota metanól sem orkugjafa en metanól er unnt að nota á hefðbundnar brennsluvélar. Hér á landi hafa menn einkum hugleitt að nota vistvæna orku landsins til að framleiða vetni á svipaðan hátt og gert hefur verið í Áburðarverksmiðju ríkisins um áratuga skeið og blanda því saman við kolefnistvíildi, CO2, sem til fellur við iðnaðarframleiðslu hér á landi, einkum í álverum og járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Á þennan hátt væri unnt að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda frá þessum aðilum og þjóðinni í heild. Hingað til hafa rannsóknir á þessu efni farið fram á vegum Háskóla Íslands, og iðnrn. hefur ekki verið aðili að þeim rannsóknum sem teljast vera grunnrannsóknir á frumstigi.

Vissulega mun ég beita mér fyrir því að skoðað verði á hvern hátt við getum þróað notkun á metanóli sem eldsneyti á næstu árum. Ég hef því óskað eftir samstarfi við umhvrn., samgrn. og sjútvrn. um að þessi ráðuneyti tilnefni aðila í sérstaka nefnd er fjalla skal um og móta stefnu við notkun vistvæns eldsneytis á næstu árum. Hafa ráðuneytin tilnefnt fulltrúa sína í samstarfsnefnd um þetta efni en auk þess munu koma að starfi hennar undirstofnanir ráðuneyta og aðrir aðilar er stunda rannsóknir á þessu sviði eins og Íslensk nýorka og Háskóli Íslands.

Eitt meginhlutverk nefndarinnar verður að skoða möguleika á notkun metanóls á næstu áratugum og í því skyni verður rætt við fulltrúa stóriðjufyrirtækjanna um hugsanlegt samstarf í þessu skyni.