Pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 10:33:22 (6341)

2002-03-21 10:33:22# 127. lþ. 102.91 fundur 417#B pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[10:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að taka upp á þingi ummæli sem hæstv. iðn.- og viðskrh. hefur í pistli á heimasíðu sinni, bæði um vaxtamál og bankakerfið og þó ekki síður um stöðu íslensku krónunnar, gjaldmiðils landsins.

Í þessum pistli, sem ber yfirskriftina Að loknu iðnþingi og er dags. 19. mars sl., þ.e. í fyrradag, segir hæstv. ráðherra m.a., með leyfi forseta:

,,Það sem ég óttast er að við getum fyrr en nokkurn grunar staðið frammi fyrir því að Bretland, Danmörk og Svíþjóð taki evruna upp og þá eigum við eftir að vinna heimavinnuna okkar.``

Síðan koma mjög merkilegar setningar, herra forseti, um vaxtaokur bankanna og verður varla sagt annað en hæstv. ráðherra gefi bönkunum falleinkunn. Mesta athygli vekja þó væntanlega harðir dómar hæstv. ráðherra um íslensku krónuna og er varla hægt að orða það öðruvísi en þannig að hæstv. ráðherra dæmi krónuna niður í 2. ef ekki 3. deild. Þar segir t.d., með leyfi forseta:

,,Það sem auk þess gerir það að verkum að hér eru hærri vextir en almennt gerist er að gjaldmiðill okkar, krónan, er ekki nægilega sterk. Gjaldmiðill sem notaður er á stóru markaðssvæði er sterkari og hefur meiri tiltrú en gjaldmiðill sem notaður er á litlu markaðssvæði.``

Um þessa speki má efast. T.d. að taka mikið fall evrunnar fljótlega eftir að hún varð til og sterka stöðu gjaldmiðla á minni svæðum eins og svissneska frankans og norsku krónunnar á sama tíma. En hvað um það. Að lokum klykkir ráðherra út með því að segja: ,,Spurningin er sú hvort okkur tekst að skapa nægilegt traust á íslenskum krónum.``

Hér talar iðn.- og viðskrh., ráðherra bankamála og viðskipta, og það vekur mikla athygli, herra forseti, að sá hæstv. ráðherra skuli taka svona til orða. Það hefði verið ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann sé sammála þessu mati. Hvergi kemur fram í máli ráðherrans að því fylgi neinir kostir að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil.

Ég spyr hæstv. ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála hvort ráðherrann telji skynsamlegt að vega svona að stöðu íslensku krónunnar.