Pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 10:42:12 (6345)

2002-03-21 10:42:12# 127. lþ. 102.91 fundur 417#B pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[10:42]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Mér finnst afar mikilvægt að Alþingi ræði þegar þingmenn og ég tala nú ekki um ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn gefa yfirlýsingar sambærilegar þeim sem koma fram á heimasíðu hæstv. iðn.- og viðskrh. Það er alveg ljóst að miklu skiptir fyrir hag bæði heimila og fyrirtækja í landinu hvort við erum með krónu eða hvort við tökum upp evru. Það að taka upp evru kallar hins vegar á að við göngum fyrst í Evrópusambandið eins og staðan er í dag.

En þessi umræða er mjög mikilvæg og það er ekki bara svo að hæstv. iðn-. og viðskrh. hafi talað í þessa veru. Ég vil minna á ræðu sem ráðuneytisstjórinn í fjmrn. hélt á ráðstefnu sem hér var haldin um evru. Þar fjallaði hann m.a. um mikilvægi þess að þessi mál væru skoðuð. Hann fjallaði jafnframt um það sem hv. Alþingi hefur síðan verið með til meðferðar og á eftir að vera enn frekar með til meðferðar, þ.e. hvaða aðgerða þarf að grípa til til að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs af því að það býr við svo lítinn gjaldmiðil að það hefur ákveðin hamlandi áhrif og það eru skattalækkanir. Við erum búin að sjá hverjar þær þurfa a.m.k. að vera. Það eru ekki bara skattalækkanir. Það þarf líka að bæta upp óhagræði íslenskra fyrirtækja með því að leyfa þeim að skrá ekki bara hlutabréfin sín í erlendri mynt heldur líka ársreikninga, færa þá í erlendri mynt og bókhald.

Herra forseti. Að mínu mati er þetta eitt af stóru málunum sem við þurfum sífellt að vera að ræða á Alþingi þannig að ég fagna því að þau skuli vera tekin upp með þessum hætti og hvet til þess að umræðan verði ekki bara á heimasíðum heldur færi hæstv. iðn.- og viðskrh. þessa umræðu enn frekar inn í sali Alþingis vegna þess að það er svo sannarlega nauðsyn á því að Alþingi taki þetta mál til góðrar og mikillar umræðu.