Pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 10:46:44 (6347)

2002-03-21 10:46:44# 127. lþ. 102.91 fundur 417#B pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[10:46]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi fullt leyfi til að segja hug sinn allan á heimasíðunni og gott að menn geti þar gengið að skoðunum hæstv. ráðherra um þessi mál. Ég held að það sé ekki ástæða til að mæla með því að menn láti liggja í þagnargildi skoðanir sínar á íslensku krónunni. Hún hefur verið veik. Auðvitað vita allir að hún hefur verið veik og það er erfitt að stjórna henni í þessu örsmáa hagkerfi hér.

En erindi mitt í ræðustól, hæstv. forseti, var að spyrja hæstv. ráðherra, af því að hún er á þeirri skoðun að hér ríki vaxtaokur og af því að hún er ráðherra þessara mála, hvað hæstv. ráðherra vill segja um yfirlýsingu Íslandsbanka sem kom í kjölfarið á vaxtalækkun Landsbankans. Íslandsbanki sagði bókstaflega að hann teldi að þessi aðgerð Landsbakans stríddi gegn stefnu Seðlabankans. Ég spyr: Hafa menn ekki haldið því fram að hér væri samkeppni á þessum markaði? Er það ekki það sem menn hafa verið að segja? Ég vil fá að heyra það frá hæstv. ráðherra hvað hún hugsar í þessu efni og hverju hún vill svara svona yfirlýsingu, um að bankarnir hafi haldið uppi okri á þessum markaði vegna þess að Seðlabankinn hafi nánast gefið fyrirmæli um það með stefnu sinni. Er það svo?