Pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 10:50:51 (6349)

2002-03-21 10:50:51# 127. lþ. 102.91 fundur 417#B pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra# (aths. um störf þingsins), HBl
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[10:50]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er merkileg yfirlýsing sem hæstv. viðskrh. gefur í Morgunblaðinu í dag. Þar segir ráðherrann, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ég vil vonast til að bankarnir sýni lit og lækki vexti.``

Spurningin er auðvitað hvernig hægt sé að gera þetta. Eins og ég veit að hv. þingmönnum er kunnugt er vísasta leiðin til að draga úr vaxtamun í bönkum sú að færa húsnæðislánin inn í bankana og leggja Íbúðalánasjóð niður.

Ég held að í þessu sambandi sé óhjákvæmilegt að taka þá umræðu upp og spyr hæstv. viðskrh. hvort komið hafi til athugunar að leggja Íbúðalánasjóð niður og með hvaða hætti hægt sé að styrkja bankakerfið með því að íbúðarlánin fari þangað inn.

Eins og alþingismenn vita veldur það töluverðu veseni hjá venjulegum Íslendingi þegar hann ætlar að festa sér íbúð eða reisa sér hús, að þurfa að byrja á að ganga í bankana og fá þar greiðslumat til þess að eiga viðskipti við einhverja allt aðra stofnun. Auðvitað er óeðlilegt að standa þannig að málum. Rétt væri að sú stofnun sem metur viðkomandi sjái einnig um lánsfyrirgreiðslu til hans. Ég vil því spyrja hvort það hafi komið til tals að færa húsnæðislánin inn í bankana? Þeir sem setið hafa lengi á Alþingi vita að þetta er gamalt baráttumál mitt og vegna þeirrar miklu áherslu sem hæstv. viðskrh. leggur á að bankarnir sýni lit vona ég að viðskrh. sýni lit einnig með því að leggja Íbúðalánasjóð niður.