Umræðuefni og störf þingsins

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:07:40 (6358)

2002-03-21 11:07:40# 127. lþ. 102.93 fundur 419#B umræðuefni og störf þingsins# (um fundarstjórn), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:07]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Eftir síðustu ræðu kom upp hugtak sem hefur svolítið verið á sveimi að undanförnu, stormur í vatnsglasi. Meðal annars kallaði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon athugasemdir mínar ómálefnalegar, þó ekki ómálefnalegri en svo að ég heyrði ekki betur en að við værum bara sammála. Það sem ég vakti athygli á var að hér fór fram mjög góð pólitísk umræða, nauðsynleg pólitísk umræða, en hún fór fram undir, að mínu mati, röngu heiti. Hún fjallaði nefnilega ekki um störf þingsins og ég heyrði ekki betur en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tæki undir það sjónarmið.

Ég vil jafnframt taka undir þakkir til hæstv. forseta, hvort heldur hann er sitjandi, standandi, í forsetastóli eða annars staðar, en ég vil beina þeim þökkum sérstaklega til hv. þm., forseta þingsins, Halldórs Blöndals, sem hefur haft hug á því að innleiða þetta form. Ég var einungis að vekja athygli á því að þá þyrfti að breyta þessu heiti þannig að við fjöllum ekki um nauðsynleg pólitísk dægurmál undir röngum formerkjum. Það var einungis það sem ég var að beina til hæstv. forseta.