Umræðuefni og störf þingsins

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:09:10 (6359)

2002-03-21 11:09:10# 127. lþ. 102.93 fundur 419#B umræðuefni og störf þingsins# (um fundarstjórn), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:09]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hér hefur farið fram umræða eins og oft áður undir liðnum störf þingsins, um pólitísk málefni. Ég hef ekkert á móti því. Ég vil samt taka undir þær raddir sem hafa sagt að rétt væri að breyta um nafn á þessum dagskrárlið þingsins sem er orðinn fastur í sessi.

Ég vil jafnframt benda á að þessar umræður beinast yfirleitt að ráðherrum. Í þeim tilfellum sem þær hafa beinst að mér sem heilbrrh. hafa hv. þm. verið svo kurteisir að láta mig vita fyrir fram að þeir hyggist taka til máls undir þessum lið þannig að ég hef þá haft tækifæri til að undirbúa mig eða bregðast við því á einhvern hátt. Ég held að við þyrftum að koma á einhverri slíkri reglu þannig að þetta væri þá fastur liður í störfum þingsins, að þingmenn gætu tekið upp það sem þeim liggur á hjarta og viðkomandi ráðherra gæti þá brugðist við. Ég hef alls ekkert á móti þessum lið. Umræður verða oft líflegar undir honum og ég held að þingið hafi gott af því, bæði þingmenn og ráðherrar, og þingstörfin. Ég vildi bara koma þessum ábendingum á framfæri.