Umræðuefni og störf þingsins

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:13:52 (6361)

2002-03-21 11:13:52# 127. lþ. 102.93 fundur 419#B umræðuefni og störf þingsins# (um fundarstjórn), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:13]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson spurði mig þegar ég gekk upp í stólinn: Hvar færð þú útrás? Ég geri mér grein fyrir því að vinstri grænir nota þennan stól til þess að fá útrás og það er af því góða. Þetta er auðvitað sá stóll sem við rökræðum um þjóðmál úr.

Ég vil segja við hæstv. forseta: Hver eru störf þingsins? Störf þingsins eru auðvitað að stórum hluta að ræða þau mál sem efst eru á baugi. Þessi morgunþáttur þingsins hér um langa hríð hefur verið allgóður að mínu viti og gerir þingið nokkuð spennandi, bæði fyrir þá sem hér sitja og ekki síður þá sem fylgjast með störfum þingsins. Menn átta sig á draumum næturinnar og hér fer umræða fram um allt milli himins og jarðar, jafnvel skraflið á heimasíðum verður hér að umræðuefni o.s.frv. Þetta er góður vettvangur orðsins, Alþingi Íslendinga. Við erum hingað kölluð, við erum brot af þjóð okkar sem eigum að fjalla um allt milli himins og jarðar og þess vegna er þetta ágætur þáttur að mínu viti, hæstv. forseti. Menn fá útrás. Menn geta farið heim og sagt eins og Jón sterki: ,,Sástu hvernig ég tók hann?`` o.s.frv. Hér koma menn málefnum dagsins á framfæri þannig að ég vil lýsa því yfir, hæstv. forseti, að ég hef ekki undan neinu að kvarta í þessu efni nema ég verð auðvitað að kvarta yfir því að menn eru kurteisari við hæstv. heilbrrh. en mig því að þeir láta mig aldrei vita fyrir fram eins og hann sagði að væri gert við sig. (SJS: Ert þú bestur óundirbúinn?) Ég verð því alltaf að koma óundirbúinn og taka því sem að höndum ber. Mér finnst það líka dálítið heillandi þannig að mér finnst að þessi vettvangur geti heitið störf þingsins. Það er hluti af störfum okkar að ræða málefnin sem koma upp og þess vegna er það hluti af störfum þingsins að hafa orðið frjálst og óþvingað áfram og að menn geti tjáð sig.