Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:19:02 (6363)

2002-03-21 11:19:02# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:19]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Burt séð frá því glapræði að vinna óafturkræf spjöll á náttúru Íslands með því að virkja við Kárahnjúka þá hefur um nokkurt skeið staðið harðvítug deila um það í þjóðfélaginu hvort réttlætanlegt sé á efnahagslegum forsendum að ráðast í þessa framkvæmd. Ríkisstjórnin hefur sagt okkur að slík kostakjör séu í boði fyrir orkuna að ekki sé stætt á öðru en að virkja til að selja Norsk Hydro í félagi við aðra þessa orku. Ekki telja margir færustu sérfræðingar þetta vera rétt mat, langt í frá. Látum það liggja á milli hluta enda hefur það nú gerst að Norsk Hydro segist ekki geta svarað til um það hvort þau þar á bæ muni vera með í þessu fyrirtæki. Þrátt fyrir þetta, herra forseti, ætlast ríkisstjórnin til þess að við munum samt sem áður, hv. Alþingi Íslendinga, veita heimild fyrir þessari virkjun, að við samþykkjum óútfylltan tékka.

Herra forseti. Ég vil mótmæla því að þetta mál sé nú tekið á dagskrá á þessum forsendum eða öllu heldur án þess að forsendur séu fyrir hendi til þess að það sé afgreitt og ég tel heppilegt og eðlilegt og réttlátt að við vísum því frá.