Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:20:43 (6364)

2002-03-21 11:20:43# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:20]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem hér til þess að taka undir mótmæli við því að þetta mál sé nú tekið á dagskrá. Ég minni á ítrekaðar óskir og kröfur um að ekki verði frekar hreyft við þessu máli hér á þingi fyrr en a.m.k. fyrir liggi sú nýja yfirlýsing væntanlegra samstarfsaðila sem hæstv. ráðherra hefur sjálf boðað að sé e.t.v. væntanleg strax eftir helgina.

Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst undarlegt að forsetar þingsins og velflestir þingmenn skuli borubrattir ætla að verja það að þjóðin horfi upp á að málið sé tekið á dagskrá og rætt hér þegar nákvæmlega þannig stendur á að það er komin upp óvissa með sjálfar forsendur þess, þ.e. hvort Norsk Hydro yfir höfuð treysti sér til að vera þátttakandi í verkefninu eða a.m.k. standa við eldri tímaáætlanir. Þessi óvissa liggur fyrir. Hún er staðfest af fjölmiðlum. Hún er staðfest af aðstoðarmanni iðnrh. Hún er staðfest af ráðherra sjálfum í umræðum í gær, eða var það í fyrradag?

Herra forseti. Við þær aðstæður getur enginn mælt á móti því að veigamiklar forsendur skortir til að ræða málið út frá efnislegum staðreyndum. Ef til vill skýrist þetta að einhverju leyti eftir helgi, e.t.v. ekki. Við vitum ekki hvert verður innihald hinnar nýju yfirlýsingar ef hún þá kemur. Ég verð að segja alveg eins og er að það undrar mig að menn skuli ekki telja þetta vandamál, að eftir sem áður sé ekkert í veginum fyrir því að sullast áfram með málið. Öðruvísi mér áður brá, verð ég að segja. Einhvern tíma hefðu menn, burt séð frá afstöðu sinni til málsins, hvort sem þeir eru því andvígir, hafi um það efasemdir eða eru eindregnir stuðningsmenn þess, sagt sem svo: Nei, nú skulum við bíða við. Við skulum ekki láta menn horfa upp á það að þingið ástundi þannig vinnubrögð (KHG: Þetta er efnisleg umræða.) að mönnum sé alveg sama um hvaða forsendur liggi til grundvallar umfjöllun um mál hér á þinginu, herra forseti.

Ég tel því mjög sterk efnisleg rök mæla með því að orðið sé við óskum okkar um að þetta mál verði ekki tekið á dagskrá. Ég geri lítið með frammíköll og gjamm manna utan úr sal sem ekki þola það að menn noti sér þinglegan rétt sinn til þess að ræða um störf þingsins eða fundarstjórn forseta. Það er athyglisvert hvað þeir framsóknarmenn eru órólegir í salnum í dag, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason og Kristinn H. Gunnarsson.

Ég ítreka sem sagt óskir mínar, herra forseti, og tel mig hafa flutt fyrir þeim sterk rök.