Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:24:03 (6365)

2002-03-21 11:24:03# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÞBack (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:24]

Þuríður Backman (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég fór þess á leit á fundi með þingflokksformönnum flokkanna með forseta þingsins í gær að þessu máli yrði frestað fram yfir páska a.m.k., þar sem búið er að boða að eftir helgina komi sameiginleg yfirlýsing iðnrh. og Norsk Hydro um stöðu málsins.

Það liggur í loftinu að Norsk Hydro er með mikinn fyrirvara, a.m.k. frestun, og við höfum ekki lengur þær forsendur varðandi tímasetningar og aðkomu Norsk Hydro sem lagðar eru til í þessu frv. Noral-verkefnið er bundið samþættingu Kárahnjúkavirkjunar eins og hún er hönnuð og byggingu álvers á Reyðarfirði. Sú yfirlýsing hefur verið gefin að það eigi ekki að fara í þessar miklu framkvæmdir með þessum miklu náttúruspjöllum nema að það sé tryggur kaupandi. Hann er ekki fyrir hendi í dag. Okkur liggur því ekki á. Við eigum að vita hver staðan er áður en við afgreiðum frv.

Að vísu er frv. þannig úr garði gert að það er ekki bundið álveri við Reyðarfjörð. Við munum þó við afgreiðslu frv. við þessar aðstæður gefa opið leyfi á virkjun, Kárahnjúkavirkjun, þessar miklu framkvæmdir án þess að skilyrða það byggingu álvers á Austurlandi. En hver verður þá framvindan? Ég tel að gagnvart Austfirðingum, gagnvart þjóðinni allri, gagnvart málinu eigi að fresta þessu máli, a.m.k. við þessar aðstæður, fram yfir páska. Mér virðist miðað við afstöðu Samfylkingarinnar að hér hafi myndast meiri hluti á þingi til að afgreiða þetta mál út. Það ætti því að vera létt verk og löðurmannlegt fyrir meiri hluta þingmanna að gera það eftir páska í stað þess að hefja umræðu núna. Þá höfum við a.m.k. þær forsendur sem við þurfum að hafa til að afgreiða málið.