Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:27:51 (6367)

2002-03-21 11:27:51# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:27]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ætlast menn virkilega til þess að við gefum heimild til þess að ráðast í einhverja dýrustu, og ekkert einhverja dýrustu heldur dýrustu framkvæmd Íslandssögunnar án þess að allar efnahagslegar forsendur liggi fyrir? Við höfum deilt um það hvort við fáum ásættanlegt orkuverð ef á annað borð verður farið út í þetta glapræði. Við höfum deilt um það.

Nú liggur ekki ljóst fyrir hvort það verði yfirleitt kaupandi að þessari orku. Samkvæmt yfirlýsingum frá Norsk Hydro er alls óvíst að þau þar á bæ komi að þessu verkefni.

Herra forseti. Stundum er talað um að hér eigi að viðhafa vönduð vinnubrögð og við eigum að standa vörð um virðingu Alþingis. Finnst mönnum þetta bera vott um vönduð vinnubrögð? Er það góð auglýsing út í þjóðfélagið fyrir virðingu Alþingis að við verðum knúin til þess að samþykkja þessa framkvæmd án þess að efnahagslegar forsendur séu til staðar? Þetta mál er allt komið í mikla óvissu og þótt ríkisstjórnin vilji ekki viðurkenna það fullum fetum þá gerir íslenska þjóðin sér grein fyrir þessu. Ég held að sú krafa standi á okkur að við sýnum vandaðri vinnubrögð en hér stendur til að gera ef fer fram sem horfir.