Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:29:48 (6368)

2002-03-21 11:29:48# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KolH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:29]

Kolbrún Halldórsdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að spyrja: Með hvaða rökum tekur virðulegur forseti þetta mál á dagskrá og ætlar virðulegur forseti ekki að svara neinu þeim kröfum sem hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa verið að leggja fram núna undir þessum dagskrárlið um fundarstjórn forseta --- sömuleiðis settum við fram þá kröfu í gær að málinu yrði frestað --- meðan það er fullljóst að um það ríkir alger óvissa? Með hvaða rökum tekur hæstv. forseti mál á dagskrá þar sem allar tímaáætlanir virðast vera upp í loft, þar sem fjármögnunarmálin liggja alls ekki á borðinu, þar sem gífurleg óvissa ríkir um arðsemi og þar sem fullljóst er að það á að fórna þeim stærstu og mestu náttúruauðæfum sem hefur verið fórnað með einstakri framkvæmd á Íslandi í allri Íslandssögunni? Með hvaða rökum er málið tekið á dagskrá meðan öll þessi óvissa ríkir, meðan enn hljóma í loftinu orð hæstv. iðnrh. úr ræðu hennar í þinginu gær? Þar sagði hún, með leyfi forseta:

,,Það er óvissa í þessu máli og þeirri óvissu hefur ekki verið eytt með orðum mínum áðan, það er ljóst.``

Hvers vegna tekur hæstv. forseti og stjórn þingsins þetta mál á dagskrá ofan í yfirlýsingar hæstv. ráðherra sem eru af þessu tagi? Ætlar stjórn þingsins og hv. alþingismenn að láta þvinga mál hér í gegn með pólitísku offorsi sem svo er ástatt um sem raun ber vitni, þar sem um er að ræða óútfylltan tékka fyrir framkvæmdaraðilann, Landsvirkjun, til að fara upp á hálendið strax í vor, byrja að rífa það í sig og undirbúa framkvæmdir á Austurlandi? En það veit enginn í dag hvort sú orka sem framleidd verður í Kárahnjúkavirkjun verði seld á Austfjörðum eða ekki. Með hvaða rökum tekur hæstv. forseti mál af þessu tagi á dagskrá þegar óvissan er jafngífurleg og þjóðin veit jafnmikið og hún veit um óvissuþættina og náttúruspjöllin sem eru yfirvofandi?