Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:38:45 (6372)

2002-03-21 11:38:45# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:38]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það var eiginlega ekki ásetningur minn að koma hér upp til að ræða um fundarstjórn forseta vegna þess að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er algerlega einhuga í þessu máli. Þess vegna var það þingflokksformaður og formaður flokksins sem komu upp með þá ósk að málið yrði tekið af dagskrá, enda ef hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur lesið nál. mitt sem iðnaðarnefndarmanns, þá kemur það fram í nál. að beðið er um að málið verði tekið af dagskrá. Þannig hanga málin saman og fyrir allra hluta sakir hefði verið heppilegra og það er krafa okkar að þó svo að nál. liggi fyrir --- að sjálfsögðu vinnum við heimavinnu okkar --- þá breytir það engu um að við erum að krefjast þess að málið verði tekið af dagskrá nú með þeim rökstuðningi sem hefur verið settur fram af hálfu þingflokksformanns flokksins.

Það er forkastanlegt í ljósi nýrra aðstæðna að ekki skuli einu sinni vera hægt, eins og beðið hefur verið um, að bíða með málið eftir miklum fréttum sem hæstv. iðnrh. boðar í næstu viku. Það er fyrst og fremst það sem við erum að biðja um í þeirri stöðu sem nú er uppi. Allar fréttir og allur málflutningur hæstv. iðnrh. á hinu háa Alþingi hnígur að því að við bíðum eftir þeim upplýsingum. Við eigum að bíða eftir því að fjalla um málið í nýju ljósi. Það er ekki forsvaranlegt að veita heimild til hæstv. iðnrh. í blindni hvað þetta varðar þegar svo mikilvægt mál er á ferðinni. Hér er á ferðinni stærsta virkjanaverkefni Íslandssögunnar fyrr og síðar og við erum ekkert að ræða hérna um neitt smámál, virðulegi forseti. Þess vegna er þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs algerlega einhuga, virðulegi forseti, um að fara þess á leit eins og gert var úr ræðustóli í gær, af mér, að málið verði tekið af dagskrá og umræðu um það verði frestað a.m.k. fram yfir helgina, fram í næstu viku þegar hæstv. iðnrh. hefur sett fram þá vitneskju sem hún boðar héðan úr ræðustóli að hún muni flytja okkur strax eftir helgina.