Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 12:21:11 (6375)

2002-03-21 12:21:11# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[12:21]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Þessar athugasemdir hv. þm. koma mér ekki mjög á óvart. En þegar ég var að fjalla um þær breytingar sem hafa orðið á efnahagslífi þjóðarinnar, þegar við breyttumst frá því að vera fátækasta þjóð Evrópu á tæplega einni öld í að verða ríkasta þjóð heims nefndi ég tvennt í því samhengi. Ég nefndi annars vegar og fyrst hærra menntastig. Við fjárfestum í menntun en það að fjárfesta í menntun dugir ekki eitt og sér, það er hvernig við nýtum þessa menntun.

Það er hárrétt hjá hv. þm. að þróun í sjávarútvegi á sinn þátt í þessu líka. En það sem ég dró fram og nefni enn og aftur er hvernig við tengjum saman menntunina og hinar náttúrulegu auðlindir. Við höfum farið þannig að í sjávarútvegi, heldur betur. Við höfum hækkað menntunarstig okkar í sjávarútvegi. Við höfum flutt menntunina yfir í sjávarútveginn.

En af því að við fjöllum um virkjun þá var ég að reyna að draga það fram hvernig við höfum gert þetta hvað varðar tengsl menntunar og orku. Þess vegna nefndi ég þessa þrjá heimsþekktu vísindamenn, að gefnu tilefni, af því að þeir voru heiðraðir í gær. Störf einstaklinga á borð við þá beinast að því að tengja menntunina við náttúrulegar auðlindir.

Mér er sama hvaða skoðanir hv. þm. hefur á framkvæmdunum við Búrfell. Ég hef hins vegar ekki heyrt þessa rödd áður, að Búrfell hafi ekki skilað verðmætum í þjóðarbúið. Ég hygg að flestir aðrir, allir aðrir sem ég hef heyrt tala um, telji að Búrfellsvirkjun og þær afleiðingar sem hún hafði hafi verið einstaklega jákvæðar fyrir efnahagslíf okkar og framfarir, hvort heldur er í Hafnarfirði, þjóðarbúinu í heild eða Akranesi.