Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 12:24:47 (6377)

2002-03-21 12:24:47# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[12:24]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég gleðst yfir því að við hv. þm. skulum þó vera sammála um að Búrfell hafi skilað gífurlegum verðmætum í þjóðarbúið og geri enn. Það er það sem við viljum trúa að gerist með Kárahnjúkavirkjun. Ég benti í ræðu minni á að sambærilegar gagnrýnisraddir heyrðust um Búrfellsvirkjun eins og við heyrum núna í efasemdir um Kárahnjúka. Við trúum því að Kárahnjúkar muni skila því sama.

Ég vil líka vekja athygli á því --- ég hygg að við getum verið sammála um það líka --- að störfum í sjávarútvegi mun væntanlega ekki fjölga svo mikið í framtíðinni. Við nýtum þá auðlind afskaplega vel. Framfarir þar munu væntanlega verða meira í vinnslu en útgerðinni sjálfri en við þurfum jafnframt að nýta aðrar auðlindir en bara sjávarútveg og þar á meðal orkuna. Við getum ekki látið orkuna fara óbeislaða til sjávar en þurfum líka að gæta náttúruverndarsjónarmiða. Við þurfum að finna þetta jafnvægi.