Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 12:26:08 (6378)

2002-03-21 12:26:08# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[12:26]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Það kom margt áhugavert fram í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar þegar hann gerði grein fyrir nál. meiri hluta hv. iðnn. Hann nefndi Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð nokkrum orðum og vísaði til félaga okkar, Hermanns Guðmundssonar, sem ætlar að vera í framboði fyrir okkur á Akranesi, þ.e. að félagi okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði væri ekki mótfallinn stækkun álversins á Grundartanga. Hv. þm. telur að klofningur hafi orðið hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Svo er aldeilis ekki.

Við verðum að horfa á málið í samhengi. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er ekkert á móti iðnaði og tekur ekki fyrir það að hægt sé að koma hér upp einhverri stóriðju. En við skulum horfa á stærðirnar og orkuöflunarþáttinn. Það sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mótmælir er blind stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar. Álverið á Grundartanga er í allt öðru umhverfi og atvinnusvæði en risaálverið sem á að fara að reisa á Austurlandi, í því fámenna umhverfi sem þar er nú. Við erum að tala um allt önnur hlutföll.

Herra forseti. Ég minnist þess ekki að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum viðhaft niðrandi orð um álver sem vinnustað.