Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 12:30:21 (6380)

2002-03-21 12:30:21# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[12:30]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Enn og aftur er þetta spurning um að sjá hlutina í samhengi. Við verðum að horfa á mögulega orkuframleiðslu á Íslandi, úr fallvötnum landsins og við höfum þegar sett stóran hluta af núverandi orku í álframleiðslu og við verðum að horfa til mögulegrar nýtingar, ásættanlegrar nýtingar á vatnsorkunni og við verðum að horfa til þess hve stóran hluta af þeirri vatnsorku við viljum setja í stóriðju og álver. Þetta er spurning um að sjá hlutina í samhengi og horfa til framtíðar.

Hvað varðar þá spurningu sem hv. þm. kom með: Hve stórt má álver vera? Ef við erum á annað borð að setja niður álver, þá skiptir það máli varðandi stærðina hvort við erum að tala um suðvesturhornið í því fjölmenni sem þar er, eða hvort við erum að tala um fámennari staði, sama hvort það er fyrir austan eða vestan, þegar við erum að tala um stærð vinnustaðarins. Ég tel að það álver sem nú á að rísa sé orðið of stórt miðað við þann mannfjölda sem fyrir er og fyrirsjáanlega verður í kringum þetta álver.