Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 12:37:37 (6384)

2002-03-21 12:37:37# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[12:37]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. svaraði ekki seinni spurningu minni sem ég óskaði þó eftir að væri aðalatriði andsvarsins. Það varðar náttúruvernd á svæðinu og ég vil fá að heyra það frá hv. þm. hvernig iðnn. fjallaði um þau mál.

Síðan vil ég í lok andsvars míns, herra forseti, geta um setningu sem hv. þm. kom með í ræðu sinni. Hún varðar það að Landsvirkjun stefni að því að lækka raforku til almenningsveitnanna um 2% á næstunni. Ég hef það staðfest, herra forseti, bæði af fundum sem ég hef setið með stjórnarmönnum Landsvirkjunar og ég hef það líka í plöggum sem ég er reyndar ekki með hér og get ekki vitnað til beint, en Landsvirkjun hefur gefið yfirlýsingar um að orkuverð til almenningsveitna skuli hækka um 30% á næstu tíu árum. Nú hefur þessi prósenta lækkað og ég spyr, herra forseti: Hverju sætir? Um leið og ég minni á að Landsvirkjun er ekki enn farin að hreyfa litla fingur til að reyna að lækka verðið þó að hún hafi gefið þessar yfirlýsingar nú í tvö eða þrjú ár.