Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 12:38:57 (6385)

2002-03-21 12:38:57# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[12:38]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um síðasta þáttinn, þá vísaði ég til þess sem fram kom hjá stjórnendum Landsvirkjunar hjá hv. iðnn. þannig að fullyrðing hv. þm. er einfaldlega röng. Ég treysti stjórnendum Landsvirkjunar. Þeir komu til iðnn. og fullyrtu að þeir stefndu að því áfram að lækka orkuverð að meðaltali um 2% á ári, það þarf því ekkert vefengja það.

Síðan var það vissulega skoðað, bæði í efh.- og viðskn. og innan iðnn. að leggja mat á svæðið með og án virkjunar. Ef einhvers staðar er hægt að tala um óvissu, þá er það einmitt í þeim þáttum hvernig á að leggja efnahagslegt mat á ósnortna náttúru. Hverjir munu njóta hennar? Hverjir eru það sem koma þangað? Hvernig á að setja verðmiða á það? Þetta er mjög óljós aðferðafræði.

Ég vek hins vegar athygli á því að Austfirðingar og margir sjá möguleikana á því að fleiri ferðamenn, mun fleiri en geta í dag, hafa möguleika vegna virkjunarinnar til að komast upp á miðhálendið og njóta fegurðarinnar þar. Það eru öðruvísi ferðamenn en hv. þm. hefur e.t.v. í huga, en mjög erfitt er að hengja verðmiða á það.