Minnisblað um öryrkjadóminn

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 13:39:59 (6389)

2002-03-21 13:39:59# 127. lþ. 102.94 fundur 420#B minnisblað um öryrkjadóminn# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[13:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fagna þeirri niðurstöðu Hæstaréttar að afhenda Öryrkjabandalagi Íslands minnisblað það sem hér er til umfjöllunar og fylgdi erindisbréfi til nefndar þeirrar sem túlka átti dóm Hæstaréttar í öryrkjamálinu svokallaða, dóm sem var ekki óljósari en svo að dómsorðið var orðrétt það sama og krafa Öryrkjabandalagsins.

Við lestur minnisblaðsins furða ég mig á því hvers vegna það var ekki birt um leið og beðið var um það. Kallað var eftir því á Alþingi og lögmaður Öryrkjabandalagsins óskaði eftir því. Það var slíkt leyndarmál að enginn skyldi fá að sjá það. Það er talandi dæmi um valdhroka hæstv. forsrh. og það hvernig hann umgengst upplýsingalögin og rétt þingmanna til upplýsinga samkvæmt stjórnarskránni, rétt sem þessi ríkisstjórn hefur ítrekað fótumtroðið.

Þetta er jafnframt talandi dæmi um það hvernig hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, hefur komið fram við öryrkja og lífeyrisþega. Hann hefur verið þeirra helsti andstæðingur og hafa þeir þurft að sækja sjálfsagðan rétt sinn og mannréttindi með hörku, með því að hóta málssókn eða fara dómstólaleiðina. Nokkur dæmi um þannig mál eru tekjutengingin við tekjur maka, heimilisuppbót fyrir þá einstæðu foreldra sem eru með börn á framfæri, táknmálstúlkun fyrir heyrnarlausa og aðgengi fatlaðra að háskólanum. Og svo er það mjög alvarlegt, en dæmigert, að í kjölfar þessa dóms nú um minnisblaðið var lokað fyrir upplýsingar um dagskrá ríkisstjórnarfunda sem hafa verið opinberar og fjölmiðlar hafa m.a. fengið.

Herra forseti. Upplýsingastefna forsrh. hæstv. og virðing fyrir upplýsingalögum ríður ekki við einteyming en niðurstaða Hæstaréttar nú ætti að vera honum ákveðin lexía.