Minnisblað um öryrkjadóminn

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 13:52:45 (6395)

2002-03-21 13:52:45# 127. lþ. 102.94 fundur 420#B minnisblað um öryrkjadóminn# (umræður utan dagskrár), ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur orðið gjörbylting í stjórnsýslu okkar Íslendinga. Stjórnsýslulögin sem voru sett árið 1992 hafa leitt til þess að stjórnsýslan er skilvirkari, opnari og aðgengilegri en áður. Almenningur hefur í krafti laga ýmis tæki og tól til að fylgjast með þeim ákvörðunum sem teknar eru hjá hinu opinbera. Um leið og aðhald með starfsemi stjórnsýslunnar hefur verið aukið er þjóðfélagið allt opnara. Það hefur sýnt sig á síðustu missirum að kerfið sem við á Alþingi höfum mótað virkar og hefur aukið réttaröryggi borgaranna. Upplýsingalögin eru einn liður í því að styðja við þetta opna þjóðfélag. Aðgengi almennings að gögnum er víðtækt og er meginregla sú að ekki þurfi að sýna fram á tengsl eða hagsmuni við mál til að fá umbeðnar upplýsingar.

Herra forseti. Mér er til efs að gerðar hafi verið í þágu borgaranna jafnmiklar umbætur á stjórnfari landsins og í tíð síðustu ríkisstjórna undir forustu Sjálfstfl. Hér get ég nefnt stjórnsýslulögin sem ég hef þegar nefnt, upplýsingalögin og skýrslu um bætt starfsskilyrði stjórnvalda sem er grunnrit í lagadeildinni í dag. Við getum nefnt samkeppnislögin og fleira og fleira mætti telja.

Ég vil aðeins víkja að hæstaréttardómnum títtnefnda um minnisblaðið og fara í 4. gr. upplýsingalaga. Þar er fjallað um gögn sem eru undanþegin upplýsingarétti. Í 1. tölul. er fjallað um fundargerðir ríkisstjórna og ríkisráðs og þar segir skýrt og klárt að ríkisstjórnin hafi sérstöðu innan stjórnsýslu ríkisins, það sé mikilvægt að ríkisstjórnin geti fjallað um pólitísk mál og mótað stefnu í sameiningu í mikilvægum málum án þess að skylt sé að veita almenningi aðgang að gögnum sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi.

Nú hefur Hæstiréttur sagt að slík gögn njóti ekki lengur verndar 1. tölul. 4. gr. upplýsingalaga, þ.e. ef þau eru hluti af skipunarbréfi, og engir fyrirvarar séu gerðir við meðferð slíkra skjala.

Herra forseti. Mér sýnist að með því að neita upphaflega að afhenda minnisblaðið hafi ætlunin fyrst og fremst verið sú að varðveita þá sérstöðu sem bæði stjórnsýslulögin og upplýsingalögin veita ríkisstjórninni, enda hafa viðbrögð ýmissa í þessu minnisblaðsmáli einmitt bent til þess að búast megi við útúrsnúningum ef slík minnisblöð eru lögð fram. Þetta finnst mér sér í lagi eftir að hafa séð hið umrædda minnisblað. Það er að mínu mati faglega unnið vinnuplagg. (Forseti hringir.) Í því er ekkert tortryggilegt, herra forseti. Á hinn bógin staðfestir það að faglega var farið í að uppfylla hinn umdeilda öryrkjadóm.