Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 14:36:38 (6402)

2002-03-21 14:36:38# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[14:36]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn snýr hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir öllu á hvolf. Ég hef ekki sagt að þingmenn væru á móti ferðaþjónustu, það er rangt. (ArnbS: Hvað ...?) Ég sagði að hv. þm. töluðu oft um að ferðaþjónustan hefði lítið vægi og áttuðu sig ekki á mikilvægi hennar. Ég sagði aldrei hér í umræðunni að hv. þm. væru á móti ferðaþjónustu.

En þegar bent er á ferðaþjónustu --- og ég stend við það --- hefur margoft komið fram, og ég get látið fletta því upp í ræðum þingmanna, að lítið er gert úr greininni og sagt að í henni séu láglaunastörf. Ég benti á það í ræðu minni að menn ættu að taka allt sviðið, frá flugstjórum og niður í þá sem búa um rúmið sem sennilega hafa lægstu launin. En ég hef aldrei sagt það sem hv. þm. er að leggja mér í munn og ég frábið mér að það sé gert á þennan hátt.

Ég hef viljað styrkja og efla vægi ferðaþjónustunnar. Það kom fram í ræðu minni að það væri eitt af höfuðmarkmiðum okkar og ég sagði jafnframt að við ættum að meta það að ferðaþjónustan er orðin annar stærsti atvinnuvegur okkar. Telst það að vera á móti ferðamennsku eða ferðaþjónustu og tala lítillækkandi um hana? Það er bara ekki rétt sem hv. þm. heyrir og telur sig hafa umboð til að hafa eftir mér. Ég held að ég geti alveg verið samstiga henni í að efla vægi ferðaþjónustunnar og er tilbúinn í þá vinnu hvenær sem er.