Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 14:38:17 (6403)

2002-03-21 14:38:17# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[14:38]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil beina hér nokkrum spurningum til hv. þm. í framhaldi af yfirgripsmikilli ræðu hans.

Hv. þm. fullyrti í ræðu sinni að ef þetta verkefni sem hér er til umræðu gengi eftir mundi það kæfa sprotafyrirtæki í landinu. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann hafi einhver dæmi um að slíkt hafi gerst vegna stóriðju og jafnframt spyrja þingmanninn hvort hann telji þá ekki með þau sprotafyrirtæki sem sprottið hafa upp vegna starfsemi álversins í Straumsvík og stóriðjunnar á Grundartanga. Ég nefni Málmsteypuna Hellu sem flytur út gífurlega mikil verðmæti, unnin upp hér, en það er þróunarstarf sem varð til í samstarfi Málmsteypunnar Hellu og álversins í Straumsvík. Ég nefni hugbúnað Jóns Hjaltalíns Magnússonar og fyrirtækis hans sem hefur flutt út um allan heim hugbúnað og róbóta fyrir álver fyrir tugi ef ekki hundruð milljóna kr. Ég spyr hvort hv. þm. telji slík sprotafyrirtæki ekki með.

Í annan stað spyr ég hv. þm. af því að hann vildi að hér yrði gerð grein fyrir öllum efnahagsstærðum á framkvæmdatíma verksins: Telur hv. þm. að efnahagur og efnahagsstærðir séu einhver fasti sem taki ekki mið af atvinnuástandi og efnahagsástandi almennt á hverjum tíma? Hvernig er hægt að gera grein fyrir slíkum efnahagsstærðum sem einhverjum fasta?

Í þriðja lagi spyr ég hvort hv. þm. telji það kúgun, eins og hann gaf í skyn, þegar félagar hans í iðnn., átta að tölu, allir nema hann í iðnn., töldu að málið væri orðið það þroskað að tímabært væri að taka það út. Getur hann sagt eða gefið í skyn að um kúgun sé að ræða?