Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 14:40:33 (6404)

2002-03-21 14:40:33# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[14:40]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason beinir til mín spurningum varðandi sprotafyrirtæki. Þó að hægt sé að nefna núna af síðasta þensluskeiði ný fyrirtæki sem hafa sprottið upp held ég að hv. þm. Hjálmar Árnason hljóti að gera sér grein fyrir því, alveg á sama hátt og ég, að þensluskeiðið sem við fórum í gegnum vegna stækkunar tveggja álvera, í Hvalfirði og hér suður með sjó, og síðan gríðarleg umsvif í samfélaginu og háir vextir hafa orðið þess valdandi að ný fyrirtæki og smærri fyrirtæki sem voru að byrja rekstur hafa lent í gríðarlegum vandræðum og sum þurft að hætta um allt land. Og undan þessu er kvartað alls staðar vegna hárra vaxta o.s.frv.

Við þurfum ekki að læra með því að fara út í annað ævintýri. Við höfum reynsluna. Við höfum að baki alveg gríðarlega erfitt tímabil þar sem sprotafyrirtæki, ný fyrirtæki með miklum lánum, hafa átt í miklum erfiðleikum um allt land. Það er þetta sem verið er að tala um varðandi ruðningsáhrif og ég hélt að hv. þm. ætti að vera þetta fullkunnugt, alveg á sama hátt og mér, eftir að hafa farið út um allt land og rætt við menn sem hafa staðið í því að stofna ný fyrirtæki. Auðvitað eru alltaf undantekningar varðandi uppbyggingu fyrirtækja í slíku ástandi en hin dæmin eru mýmörg og við hv. þingmenn hljótum að hafa verið í sambandi við fólk víða um land sem hefur farið halloka með sín nýju fyrirtæki og áform vegna stöðunnar, t.d. í peningamálum í samfélaginu.