Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 14:47:49 (6409)

2002-03-21 14:47:49# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[14:47]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hæstv. forseta þingsins fyrir þessi viðbrögð. Þau eru eðlileg. Reyndar var óskað eftir því hér í morgun að þessu máli yrði frestað, að lágmarki fram að þeim tíma að niðurstaða fæst um hvort Norsk Hydro hyggist eiga aðild að álveri í Reyðarfirði. Sem kunnugt er þá er það kaupandinn að orkunni frá Kárahnjúkavirkjun, þeirri virkjun sem er hér til umræðu.

Menn hafa verið að reyna að kalla eftir upplýsingum um ýmsar efnahagslegar forsendur málsins, verð á raforkunni og þar fram eftir götunum. Nú kemur á daginn að kaupandinn er ekki einu sinni fyrir hendi. Í ofanálag flýr núna hæstv. iðnrh. af hólmi og er ekki viðstödd þessa umræðu.

Herra forseti. Ég þakka þessi viðbrögð forseta þingsins. Þau eru eðlileg og að sjálfsögðu getur þessi umræða ekki farið fram nema að viðstöddum hæstv. iðnrh.