Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 14:49:09 (6410)

2002-03-21 14:49:09# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[14:49]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég skil ekki alveg þá leiksýningu sem hér er í gangi. Hér er verið að fjalla um frv. til laga, fyrst og fremst um nál. Hér hafa nefndir, iðnn. og fleiri nefndir reyndar, fjallað um mjög ítarlega um málið og það er verið að fjalla hér um nál. Þetta mál er í höndum þingsins. (Gripið fram í.) Þetta mál er ekki í höndum ráðherra, þetta er í höndum Alþingis.

Það vill svo til að hæstv. iðnrh. þurfti að bregða sér af bæ til að sinna skylduverkum, eins og ég hygg að hæstv. forseta sé alveg ljóst og hafi vitað. Mér vitanlega lét hæstv. ráðherra þá ræðumenn sem næstir eru á mælendaskrá vita af þessu og þeir munu ekki hafa gert athugasemd en hæstv. ráðherra mun koma aftur í þinghúsið. Þannig finnst mér eðlilegt, í ljósi þess og þess að hér eru nál. til umræðu, að við höldum umræðunni áfram. Ég botna satt að segja ekki í þessari leiksýningu sem hv. þingmenn Vinstri grænna setja enn einu sinni af stað.

Ég veit að þeir eru á móti málinu en þá eiga þeir bara að segja það en búa ekki til svona sýningu dag eftir dag, nánast klukkustund fyrir klukkustund í þessu máli. Þeir hafa sagt sína skoðun. Þeir eru á móti því og vilja þetta mál feigt. Gott og vel. En það bara vill svo til að átta af níu nefndarmönnum í iðnn. töldu málið fullþroska og vilja fá að ræða það.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að við höldum umræðunni áfram.