Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 14:57:56 (6416)

2002-03-21 14:57:56# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[14:57]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þingfundur hófst á því hér að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs kröfðust þess mjög eindregið að þetta mál yrði ekki sett á dagskrá vegna þess að þeir eru mótfallnir virkjun við Kárahnjúka og álversframkvæmdum við Reyðarfjörð, eins og alkunna er. (KolH: Hver ætlar að kveða upp úr um það?) Þeir óskuðu þess eða kröfðust þess að málið yrði ekki tekið á dagskrá.

Til allrar hamingju er allverulegur meiri hluti fyrir því í þinginu að taka málið til umræðu. Þess vegna fór það á dagskrá. Þá grípa hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til þess örþrifaráðs að stökkva hér upp vegna þess að hæstv. iðnrh. þurfti að fara og sinna skylduerindum.

Nú er það svo, herra forseti, að það hefur margsinnis gerst að ráðherrar hafi ekki verið viðstaddir 2. umr. þegar fjallað er um nál. (SJS: Nefndarálit?) Þar að auki er venjan frekar að ráðherra svari oftast í lok umræðu, safni spurningum (Gripið fram í.) og það er afskaplega ... (SJS: Hann verður þá að heyra spurningarnar.)

Má ég biðja hæstv. forseta að reyna að róa hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs svo ég megi nú ljúka máli mínu. En venjan er sú að ráðherrar svari í lokin. Það er mjög auðvelt. Ég skal taka að mér, ef hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs þurfa að koma spurningum til ráðherra, að koma þeim til hennar sé þeim einhver léttir að því. Það er hins vegar venjan að ráðherra bregðist við og svari spurningum í lokin. Þannig er ekkert óeðlilegt við þetta. Hér mun ráðherra koma aftur í húsið.

Ég tek undir það sem hv. formaður þingflokks Samfylkingarinnar sagði og beindi frómri ósk til hæstv. forseta um að halda þessari umræðu áfram á eðlilegum nótum.