Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 15:21:08 (6418)

2002-03-21 15:21:08# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Frv. sem við ræðum hér í dag hefur eðlilega orðið þjóðinni uppspretta mikillar umræðu enda er hér verið að ræða um býsna stóra framkvæmd. Það sem þó hefur kannski orðið enn frekar umræðuefni undanfarinna daga er hvort yfir höfuð nokkuð verði af þessari framkvæmd. Það er svo merkilegt, það birtist okkur hér a.m.k. þannig, að þeir sem eru mest á móti framkvæmdinni og alfarið á móti henni virðast hafa af því mestar áhyggjur hvort af henni verði. Það er auðvitað hótfyndni af minni hálfu, herra forseti, að segja þetta en ég get ekki látið hjá líða sökum þess að það er svolítið óþægilegt fyrir þá sem vilja taka þátt í málefnalegri umræðu, og eftir því hefur verið óskað af hálfu ýmissa hér, og það er svolítið erfitt að fóta sig þegar viðmiðunum og efnisástæðum manna fyrir andstöðu eða stuðningi er sífellt breytt.

Herra forseti. Ég er hér komin til þess að gera grein fyrir fyrirvara mínum og hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar í iðnn. Við skrifum undir álit meiri hlutans með fyrirvara eins og fram kemur í því áliti.

Vegna þess hvernig aðrir hv. þm. hafa notað söguna sem viðspyrnu fyrir sínum skoðunum langar mig til að víkja að söguskoðunum. Það er mikilvægt vegna þess að nú eru komnir í salinn þeir tveir ræðumenn sem talað hafa fyrir nefndarálitum í þessari umræðu og hafa báðir notað viðspyrnu í sögunni til þess að réttlæta skoðanir sínar. Ég mun gera það einnig þegar það er viðeigandi í ræðu minni af þessu gefna tilefni. En, herra forseti. Ég er ekki viss um að söguskoðun mín sé sú sama og hinna tveggja, en það mun koma í ljós.

Það var afstaða okkar í Samfylkingunni að ef verða átti af virkjun við Kárahnjúka þyrfti að vera mikill efnahagslegur ávinningur af þeirri framkvæmd, fyrir þyrfti að liggja að arðsemi virkjunarinnar væri ótvíræð og að hin þjóðhagslegu áhrif af þessari framkvæmd væru viðráðanleg og jákvæð. Er þá bæði átt við virkjun og álver.

Okkur fannst líka skipta verulegu máli fyrir niðurstöðu okkar um þetta mál hver stefna stjórnvalda yrði í nýtingu lands norðan Vatnajökuls. Við höfum talað fyrir þjóðgarði þar eins og menn hafa orðið varir við og erum með þingmál í vinnslu á síðasta snúningi sem lýtur að því hugðarefni. En það er alveg ljóst að svo stór framkvæmd sem hér um ræðir hefur í för með sér mikil umhverfisáhrif og það er stjórnmálamanna og þá Alþingis að meta hvort veita beri svo stóru máli brautargengi þar sem vegnir eru saman hugsanlegur ávinningur í hærri þjóðartekjum og í annars konar byggðaþróun og hugsanleg þjóðhagsleg áhætta og neikvæð umhverfisáhrif. Herra forseti. Þessa þætti höfum við fulltrúar Samfylkingarinnar í iðnn. vegið saman og niðurstaða okkar var sú sem fram hefur komið, að við skrifum undir álit nefndarinnar með fyrirvara.

Við höfum að sjálfsögðu mjög horft til þeirra umhverfisáhrifa sem virkjun við Kárahnjúka hefur í för með sér og það er alveg ljóst að sú andstaða sem er innan Samfylkingarinnar byggist fyrst og fremst á slíkum viðhorfum. Það er skiljanleg andstaða sem við virðum. Við höfum hins vegar ekki bara horft á þau umhverfisáhrif sem framkvæmdin hefur í för með sér heldur líka skoðað ferlið sem mat á umhverfisáhrifum fór í, þ.e. eftir að skipulagsstjóri felldi úrskurð sinn. Það er álit fulltrúa Samfylkingarinnar í umhvn., og kemur það fram í fylgiriti með áliti meiri hlutans, að þau telja að eftir að Skipulagsstofnun felldi úrskurð sinn vegna fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar og eftir að sá úrskurður var kærður til umhvrh. á grundvelli laganna um mat á umhverfisáhrifum hafi ráðherra í raun átt um tvo kosti að velja. Hún átti um þann kost að velja að taka kæruna eins og hún gerði til umfjöllunar með því að gangast fyrir einhvers konar framhaldsmati, byggðu að einhverju leyti á nýjum upplýsingum. En ráðherra átti líka þann kost að senda málið aftur til umfjöllunar Skipulagsstofnunar sem hefði þá fengið hin nýju rannsóknargögn í hendur og getað kveðið upp nýjan úrskurð.

Herra forseti. Það kemur fram að fulltrúar Samfylkingarinnar bera ekki brigður á lögmæti þess ferlis sem umhvrh. ákvað að setja málið í enda liggur því til grundvallar lögfræðiálit þar sem færð eru rök fyrir niðurstöðu ráðherrans. Það er hins vegar skoðun okkar að sá kostur sem ráðherra valdi verði að teljast stjórnsýslulega hæpinn vegna þess að hinn endanlegi úrskurðaraðili, þ.e. umhvrh. sjálfur, ber þá ábyrgð á umhverfismatsferlinu og þeim vinnubrögðum sem við það er beitt. Þar með ber ráðherrann og ráðuneytið, sé þessi leið valin, ábyrgð á einstökum niðurstöðum úr matsferlinu. Þetta, herra forseti, teljum við að rýri trúverðugleika ráðuneytisins og ráðherrans og kalli fram efasemdir um það hvort málsmeðferðin standist stjórnsýslulega og hvort hún standist alþjóðlegar skuldbindingar okkar í umhverfismálum. Okkur finnst sem sagt, herra forseti, að þarna hafi verið tekin óþarfa áhætta með þessari málsmeðferð þó við vefengjum ekki að eins og lögin eru hafi ráðherra verið heimilt að fara þessa leið.

Það er alveg ljóst eftir þessa skoðun að það er niðurstaða okkar og einn af fyrirvörum okkar í raun að það þarf að taka lögin um mat á umhverfisáhrifum til endurskoðunar með tilliti til þess hvernig fara skuli með kæru til ráðherra vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar og við teljum að ferlið sem nú er að baki styðji þá niðurstöðu.

Herra forseti. Það má kannski segja að kerfið sé ekki alveg við því búið að úrskurðir séu felldir á þann veg sem skipulagsstjóri gerði. Það hefur sem sagt ekki verið alvanalegt að mati á umhverfisáhrifum væri hafnað eða það fellt þannig að á lögin reyndi í þessu tilfelli. En eins og ég sagði þá er það mat okkar að ástæða sé til að endurskoða lögin með tilliti til þessarar reynslu.

Herra forseti. Ég gat áðan um þann fyrirvara fulltrúa Samfylkingarinnar sem lýtur að verndun lands norðan Vatnajökuls þannig að í kjölfar virkjunar við Kárahnjúka verði ekki ráðist í frekari framkvæmdir sem skaðað geti dýrmætar náttúruperlur þar. Segja má, herra forseti, að sú hugmynd sem við höfum reifað um þjóðgarð norðan Vatnajökuls hvort sem virkjað verður eða ekki sé mjög í takt við það sem margir Austfirðingar hafa verið að ræða. Á fund iðnn. kom einmitt samstarfshópur Markaðsskrifstofu Austurlands sem lagði mikla áherslu á að farið yrði að vinna að hugmyndum um þjóðgarð á svæðinu norðan Vatnajökuls samhliða virkjun þannig að hægt yrði að samþætta aðgerðir og skipulag á svæðinu strax frá upphafi. Þarna voru á ferðinni áhugamenn um uppbyggingu atvinnulífs á Austurlandi, ekki síst ferðaþjónustu, sem leggja áherslu á að ef farið verður í virkjunarframkvæmdir þá hafi menn í huga allan tímann að það sem gert verði á svæðinu gagnist ferðaþjónustu, spilli henni a.m.k. ekki umfram það sem hlýtur að gerast.

[15:30]

Í meirihlutaálitinu er eins og fram hefur komið tekið mjög sterklega undir áherslur Samfylkingarinnar í þessum efnum. Þar segir, með leyfi forseta, að:

,,... frá sjónarhóli jafnt umhverfisverndar sem útivistar sé æskilegt að ósnortin víðerni norðan Vatnajökuls verði lögð undir þjóðgarð. Meiri hlutinn hvetur til að tillögur um það verði teknar til alvarlegrar skoðunar hið fyrsta.``

Þetta er að okkar mati afar mikilvægt fyrir framhaldsþróun málsins. Það kom fram hjá hv. frsm. meirihlutaálitsins að hæstv. umhvrh. hefur tekið undir áhuga manna í þessa veru.

Ég ætla, herra forseti, að rekja önnur atriði sem hafa komið fram og skipta máli fyrir niðurstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli. Orkuverð er með þeim hætti að sannfærandi rök eru fyrir því að raunarðsemi virkjunarinnar verði 6,3--6,4%. Það er 1% umfram ávöxtunarkröfu verkefnisins og hlutlaust fyrirtæki, Ráðgjöf og efnahagsspár, sem gerði sjálfstæða útreikninga út frá öllum helstu áhættuforsendum, þ.e. stofnkostnaði, þróun álverðs, raungengi á orkumarkaði o.s.frv., komst að sambærilegri niðurstöðu. Þetta skiptir máli, herra forseti, eins og ég sagði áðan, vegna þess að við hljótum að horfa til þess hver arðsemi þessara framkvæmda er. Það er auðvitað ein af forsendunum fyrir stuðningi við verkefnið.

Gert er ráð fyrir því að verkið geti greitt upp stofnkostnað og vexti á um 30 árum, 25--30 var sagt áðan. Við skulum bara segja 30 ár, en það er ekki langur tími þegar um er að ræða fjárfestingu upp á 118 milljarða kr. Þó að menn séu að tala um að rétt væri að krefjast meiri arðsemi eins og gert hefur verið af sumum hagfræðingum, að krefjast 10% arðsemi, þá virðist 6% arðsemi eða 5,1% sem Landsvirkjun hefur gefið sér nægt til að greiða þetta verk upp á 30 árum. Ég hygg að flestum þætti það bærileg arðsemi, a.m.k. þeim sem eru að greiða upp húsnæði sitt og þurfa til þess enn lengri tíma.

Herra forseti. Ég hygg að hér sé ekki ofsagt þegar menn tala um að um arðsamt verkefni sé að ræða. Hins vegar er ljóst að sú gagnrýni sem fram hefur komið, að verkefnið væri hugsanlega ekki arðsamt væri öðrum forsendum beitt, ætti alveg rétt á sér ef við værum með aðrar aðstæður. Væru aðstæðurnar þær að hér væri um fyrirtæki að ræða sem ekki væri í opinberri eigu, hefði ekki kost á ríkisábyrgð, fyrirtæki sem byggi við þær aðstæður að lagaumhverfð væri öðruvísi hvað varðar auðlindapólitík, þá værum við, herra forseti, að tala um allt aðra arðsemi. Það er alveg ljóst. En staðreynd mála er auðvitað sú að við erum að tala um fjárfestingu sem á sér stað út frá þeim veruleika sem við búum við núna. Út frá þeim veruleika verðum við að vinna. Við getum síðan hugsanlega sameinast um að breyta þeim veruleika, breyta þeim lagaramma þannig að umhverfi fjárfestinga af þessu tagi verði í framtíðinni annað en það er núna. Fyrirvarar okkar í Samfylkingunni lúta einmitt að hluta að því.

Af því að hér hefur verið rætt um orkuverð til almennings vil ég ítreka það sem fram kom hjá fulltrúum Landsvirkjunar á fundi iðnn., að áætlun um lækkandi orkuverð til almennings er og verður samkvæmt samkomulagi eigenda fyrirtækisins þar um. Því var haldið ákveðið fram. Eigendur fyrirtækisins gerðu með sér samkomulag um þetta fyrir tveimur eða þremur árum þegar lögum um Landsvirkjun var breytt. Á fulltrúum Landsvirkjunar sem komu á fund iðnn., en það voru forstjóri fyrirtækisins og ýmsir æðstu stjórnendur, var ekki að heyra annað en að staðið yrði að fullu við það samkomulag.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að bera brigður á þau orð. Menn hljóta að standa við þau orð sín. Ef forsendur breytast svo gífurlega að ekki verði hægt að standa við þau þá hlýtur þessu samkomulagi að verða breytt, þessu samkomulagi eigenda. En eins og ég segi kom ekkert fram hjá þessum fulltrúum Landsvirkjunar annað en að við þetta samkomulag yrði staðið. Eftir því var einmitt spurt á fundinum.

Herra forseti. Helsti áhættuþátturinn í útreikningum og arðsemi framkvæmdarinnar er auðvitað þróun álverðsins. Landsvirkjun hefur byggt forsendur sínar um álverð á spám virtustu greiningarfyrirtækja, fyrirtækja sem hafa mikla reynslu af því að greina þróun markaðarins. Nú geta menn sagt: Það er auðvitað ekkert að marka svona fyrirtæki með ríkisábyrgð, svona opinbert fyrirtæki. Ríkisfyrirtæki eins og Landsvirkjun getur náttúrlega tekið hvaða áhættu sem er. En það verður að koma fram, herra forseti, að bæði efh.- og viðskn. og iðnn. kölluðu á fund sinn fulltrúa annarra, þ.e. aðila sem eru að byggja álver eða hafa hug á slíkum framkvæmdum, fulltrúa fyrirtækja sem eru á markaði ef svo má að orði komast. Ég held að það sé nokkuð ljóst að þeir aðilar væru ekki að fara í þær framkvæmdir eða hefðu ekki hug á þeim framkvæmdum ef þeir tryðu ekki sjálfir því sem þeir segja um þróun álverðs. Ég held að orð þeirra auk þess sem matsfyrirtækin segja hljóti að vera það sem við horfum til í þessum efnum.

Í upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun hefur komið fram að á framkvæmdatíma yrði landsframleiðsla um 2% meiri en ella væri og þjóðarframleiðsla 1--1,5% meiri. En eftir að framkvæmdum lýkur og virkjun og álver starfa með fullum afköstum þá mun árlegur útflutningur aukast um 14%, a.m.k. fyrsta áratuginn. Landsframleiðsla gæti til lengdar orðið 1,25--1,5% hærri og þjóðarframleiðsla tæpu 1% meiri.

Herra forseti. Þetta eru auðvitað tölur sem skipta máli. Sérstaklega finnst mér skipta máli að við aukum okkar útflutning. Ég hygg að flestir getið verið á einu máli um það að útflutningur okkar hefur alls ekki aukist í takt við það sem hann hefði þurft að gera á undanförnum árum. Þvert á móti tala menn jafnvel um að Ísland hafi verið að alþjóðavæðast á sama tíma og aðrar þjóðir eru í raun að auka útflutning sinn. Sáralítið hefur gerst hjá okkur og það er í raun mjög skaðlegt. Við þyrftum að auka útflutning okkar. Okkur hefur ekki auðnast að ná að auka útflutning að því marki sem við þurfum. Við höfum hins vegar búið við mikinn viðskiptahalla og minni viðskiptahalli, sem við horfum nú framan í, er fyrst og fremst vegna þess að samdráttur er mjög skarpur í samfélaginu en ekki vegna þess að við höfum fengð auknar útflutningstekjur. Ég endurtek, herra forseti, að það er mjög mikilvægt að við aukum útflutningstekjur okkar.

Jafnframt hefur komið fram að á milli áranna 2002 og 2013 yrði fjárfesting 12% hærri en ella væri vegna þessarar framkvæmdar einnar eða þessara framkvæmda og að meira en helmingur fjárfestingarinnar félli til á árunum 2004--2006. Strax eftir 2007--2008 fara framkvæmdir hins vegar að hjaðna og munu hjaðna ört. Þær upplýsingar sem liggja fyrir um arðsemi framkvæmdarinnar sýna að ávinningurinn af henni gæti verið mikill og ótvíræður og geti til frambúðar haft jákvæð áhrif á kaupmátt og lífskjör og almennt á samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Menn hafa talað dálítið um ruðningsáhrifin, þ.e. út frá því að ef önnur fyrirtæki eru veikari eða með minni framleiðni muni þau láta undan og þar með muni þau sem hafa meiri framleiðni lifa áfram og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs þar með aukast.

Þá ætla ég að víkja aðeins að söguskoðunum. Ég er sammála þeim, herra forseti, sem hafa haldið því fram að það sé mikil blessun að því fyrir Ísland að eiga sem virkust erlend samskipti og mikilvægt sé fyrir efnahagslíf okkar að fá hér erlenda fjárfestingu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mun mikilvægara fyrir okkur að fá erlenda fjárfestingu en vera í sífelldum erlendum lántökum. Það hafa verið okkur ákveðin vandræði hve lítill áhugi hefur verið fyrir erlendri fjárfestingu á Íslandi. Helst er að hann hafi verið í stóriðju.

Það er jafnvel þannig að þó að við opnuðum fyrir fjárfestingar í sjávarútvegi er vafamál að nokkur hefði áhuga. Af hverju skyldi það vera? Það er m.a. vegna máls sem við ræddum fyrst á fundinum í dag, vegna þess að það eru svo fáir sem hafa áhuga á því að fjárfesta í hlutabréfum á krónumarkaði. Það er bara þannig. Það er vandamál að mati okkar margra. Það er vandamál að mati íslenskra stjórnvalda. Ef þeim fyndist þetta mál ekki vera vandamál væri það ekki á dagskrá hér síðar í dag þar sem talað um það að íslenskt fyrirtæki fái heimild til þess að skrá hlutabréf sín í erlendri mynt. Þá værum við heldur ekki búin að vera að fjalla um þingmál hér sem gera að verkum að íslensk fyrirtæki gæti skráð reikninga sína, fært bókhald og ársreikninga í erlendri mynt. Þá hefðu heldur ekki orðið þær skattalækkanir á fyrirtæki sem við höfum verið með. Allt snýst þetta um það að reyna að rétta af þann samkeppnishalla sem íslensk fyrirtæki búa við, m.a. vegna krónunnar.

Svo við förum í söguna held ég að það sem kallað hefur verið Píningsdómur og gerðist fyrir rúmlega 500 árum hafi kannski skipt sköpum fyrir þróunina á Íslandi, þ.e. að hér yrði ekki þéttbýlismyndun fyrr en um þarsíðustu aldamót. Píningsdómur gekk út á það, eins og hv. þingmenn væntanlega muna, að útlendingum var bannað að hafa vetursetu á Íslandi. Ef útlendingar ekki máttu hafa vetursetu á Íslandi fjárfestu þeir að sjálfsögðu ekki á Íslandi. Þeir gátu verið við veiðar en gátu ekki komið upp verstöðvum og þar af leiðandi varð ekki sama þéttbýlismyndun í tengslum við sjávarútveg hér eins og víða annars staðar. Íslenskir bændahöfðingjar sem alla tíð voru mikið íhald komu í veg fyrir að á þeim tíma gæti orðið samkeppni um vinnuaflið. Íslenskir bændahöfðingjar gerðu þetta í gegnum aldirnar með vistarbandi eða eftir öðrum aðferðum. Það er ekki fyrr en í lok 19. aldarinnar að vistarbandið rofnar og það leyfist í raun að þéttbýli myndist á Íslandi. Það hafði reyndar flotið út af fyrr, en hvert flaut það? Það flaut til Kanada.

Eftir að menn voru búnir að reyna að hreiðra um sig upp til heiða, flæmdir úr mannlegu samfélagi, fluttu þeir til útlanda. Menn flúðu land af því að heiðarbýlin voru ekki nógu góð í harðærinu og kuldaárunum. Það var ekki fyrr en vistarbandinu var aflétt að hér fór að glaðna til í þjóðlífinu. Það gerðist líka, herra forseti, eftir að við fórum að fá mannréttindi með vorskipum.

Það er nefnilega líka ein sorgarsagan, að mannréttindi hafa Íslendingar aðallega fengið með vorskipum. Íslensk borgarastétt hefur aldrei haft döngun í sér til að berjast fyrir mannréttindum. Þau hafa meira og minna komið utan frá. Mér þykir þetta miður, en þetta er saga þjóðar minnar.

[15:45]

Herra forseti. Þetta er hluti af þeirri söguskýringu sem mér finnst eiga erindi inn í þessa umræðu í dag, einkum af því að menn hafa verið að réttlæta skoðanir sínar og hugmyndir með söguskoðunum, ýmist með kaupfélagsstofnunum eða með rafvirkjun.

Herra forseti. Svo við víkjum aftur nákvæmlega að þeirri framkvæmd sem mörgum vex í augum, þá ætla ég að taka undir með þeim sem segja: Þessi framkvæmd er ekki stærri en sú sem Íslendingar réðust í þegar byggt var upp við Búrfell og við álverið í Straumsvík. Menn segja kannski: Það er ekkert að marka, þá voru aðstæður allt aðrar. En hagfræðingar sem leggja þetta tvennt að jöfnu eru búnir að leiðrétta eins og þeir segja fyrir þeim mismun, og það eru hagfræðingar eins og Edda Rós Karlsdóttir sem ég er tilbúin að trúa vegna þess að mér finnst hún hafa talað mjög skynsamlega um þessi mál og hún er hagfræðingur sem þorir að segja hlutina eins og þeir eru.

Ég held að við séum líka á margan hátt miklu betur í stakk búin núna en við vorum þá til að takast á við framkvæmd af þessu tagi. Það er ljóst að bæði stærð þessarar framkvæmdar og allur ferill gerir miklar kröfur til hagstjórnarinnar. Og ef hamla á gegn verðbólgu og þenslu þá þarf auðvitað að vera hér með mjög skarpa hagstjórn. Það kom fram bæði við umfjöllun efh.- og viðskn. um þetta mál og sömuleiðis í iðnn. að búið er að fara býsna mikið yfir þessa þætti. Allar okkar helstu efnahagsstofnanir hafa farið yfir þá þætti, Seðlabanki, Þjóðhagsstofnun, fjmrn. og fleiri aðilar, og menn vita mjög mikið um hvað gæti gerst og hafa verið að skoða til hvaða aðgerða væri þá hægt að grípa.

Ég geri ráð fyrir að ef efnahagsstaðan verður þannig á þeim tíma, ef af framkvæmdum verður, að grípa þurfi til aðgerða, þá verði þær samþættar. En það er alveg ljóst að nú eru menn að fara í miklar framkvæmdir með opin augun, kannski í fyrsta skipti í Íslandssögunni, með opin augun að því leyti til að menn eru búnir að reikna það út fyrir fram hvað gæti gerst í efnahagslífi okkar, miðað við gefnar forsendur að sjálfsögðu, menn eru ekki komnir á staðinn enn þá og lenda kannski aldrei þar, en við erum að vinna út frá því sem við höfum í höndunum í dag. Menn eru líka búnir að vera að velta fyrir sér hvaða aðgerðum, mótvægisaðgerðum svokölluðum, væri hægt að beita ef á þyrfti að halda. Hér eru menn því að fara í stóra framkvæmd með opin augun og við treystum því að þegar þar að kemur, ef af verður, verði um samhæfðar aðgerðir að ræða.

Herra forseti. Við styðjum þessa framkvæmd í trausti þess að gripið verði til samþættra aðgerða við hagstjórn eins og við höfum reyndar jafnan óskað eftir að gert væri og höfum verið iðin við að gera á undanförnum tveimur, þremur árum þegar okkur hefur fundist að heldur mikill slaki væri oft á tíðum í hagstjórninni hjá hæstv. ríkisstjórn. En það er ekki alveg víst, herra forseti, þó að af þessari framkvæmd verði, að það verði nákvæmlega þessi ríkisstjórn sem verður við völd, og reyndar höfum við sum á tilfinningunni, sem höfum verið hér undanfarna daga, að minni líkur séu á því en meiri.

En, herra forseti, það er nú svo að stjórnmálamenn geta ekki alltaf kosið sér tíma eða aðstæður fyrir þær ákvarðanir sem þeir þurfa að taka. Fyrirvarar okkar snúast auðvitað að nokkru leyti um það líka. Við hefðum sannarlega viljað hafa traustara land undir fótum þegar við tækjum ákvörðun um að afgreiða virkjunarleyfi um Kárahnjúkavirkjun í hendur hæstv. iðnrh. Jafnvel það að vera með 1. september sem niðurstöðudag fyrir framkvæmdaraðila að álveri skapaði óvissu. En við vissum þó allan tímann, a.m.k. í þessari hrinu, að það mundi koma í okkar hlut hér á hinu háa Alþingi að afgreiða virkjunarleyfi án þess að álverið væri í hendi. Það er ekkert nýtt í því í dag. Það hefur ekki breyst. Upp á okkur stendur enn að afgreiða virkjunarleyfið. Nú má það vel vera að einhverja næstu daga berist tíðindi um að dagsetningin 1. september verði ekki lengur 1. september heldur einhver allt önnur. En það breytir ekki þeirri stöðu að upp á okkur stendur að afgreiða virkjunarleyfið.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst það ekki vera stóra málið fyrst hvort eð er lá fyrir að við yrðum að afgreiða virkjunarleyfið án þess að þeir sem ætla að byggja álver væru með endanlega niðurstöðu í því máli. Ég lít svo á, miðað við þann texta sem er í þessu frv. að hér sé verið að veita virkjunarleyfi sem er tengt álveri á Reyðarfirði, enda kemur það fram strax í athugasemdum við lagafrv. að það sé flutt til að afla lagaheimilda fyrir Kárahnjúkavirkjun og stækkun Kröfluvirkjunar vegna stóriðjuframkvæmda sem áformað er að ráðast í á næstu árum á Austurlandi. Ég hygg, herra forseti, að við sem erum að vinna með þetta mál horfum á málið út frá því sem stendur í frv. og það var ekkert sem kom fram í vinnu iðnn. sem benti til annars en að þetta væri skilningur allra þeirra sem að málinu koma.

Ég er þess vegna ekkert að gera því skóna að þó svo að virkjunarleyfi verði veitt og engir samningar náist um álver að ráðherra rjúki til og gefi Landsvirkjun framkvæmdaleyfi. Mér finnst það mjög ólíklegt satt best að segja, enda mundu lög Landsvirkjunar ekki heimila fyrirtækinu að fara í framkvæmdir ef svo bæri undir, vegna þess að eins og menn þekkja eru lög Landsvirkjunar þannig að fyrirtækið þarf að hafa kaupanda í hendi til að geta ráðist í framkvæmdir.

Herra forseti. Ég sagði að stjórnmálamenn gætu ekki alltaf kosið sér tíma eða aðstæður þeirra ákvarðana sem þeir þurfa að taka. Það er stundum býsna snúið, en segja má að það reyni þá kannski á menn þegar þannig stendur, að þeir haldi ró sinni og haldi þeim kúrs sem tekinn hefur verið einfaldlega vegna þess að ef menn ætla að þoka málum áfram þá horfa þeir að sjálfsögðu á þá niðurstöðu sem verið er að vinna að og horfa á þau verkefni sem fyrir liggja. Ef menn eru hins vegar á móti framkvæmd þá leita þeir auðvitað allra þeirra leiða sem færar eru til þess að bregða fæti fyrir verkefnið. Þannig ganga þessir hlutir fyrir sig.

En við erum ekki bara að veita virkjunarleyfi eins og ég gat um áðan, herra forseti, heldur er það auðvitað svo að Alþingi kemur að hluta til fram fyrir hönd eiganda. Landsvirkjun er, eins og margoft hefur komið fram, opinbert fyrirtæki að helmingi í hluta ríkisins, og stjórnvöld og Alþingi akta að hluta til sem fulltrúar eiganda, og það er þess vegna sem menn horfa á arðsemi fyrirtækisins einnig og þess líka að ríkisábyrgð er gefin á slíka framkvæmd.

En við breytt orkuumhverfi kunna þessir hlutir vissulega að breytast. Ljóst er að við erum að fara væntanlega á næsta missiri a.m.k. í umræður um breytt orkuumhverfi og sú staða sem verið hefur, hvort sem um er að ræða Landsvirkjun eða önnur orkufyrirtæki, mun auðvitað breytast með breyttum lögum. Við erum að fara inn í nýtt umhverfi og ég hygg, herra forseti, að tími ríkisábyrgða fari nú mjög að styttast. Alla vega er það orðið meirihlutaálit, leyfi ég mér að fullyrða, sem fram kemur í áliti Seðlabankans um þetta mál þar sem hann bendir á að rök kunni að vera til að skoða, með leyfi forseta: ,,hvort ekki sé unnt að takmarka áhættu almennings af verkefninu með því að takmarka með einhverjum hætti þær ábyrgðir opinberra aðila sem verða á lánsfjáröflun til orkuframkvæmda að öðru óbreyttu. Seðlabankinn hefur almennt verið á móti víðtækri notkun ríkisábyrgða í áhætturekstri og fjármálastarfsemi enda geta þær skekkt áhættumat og samkeppnisstöðu. Á þessu eru þó alltaf undantekningar sem meta verður í hverju tilfelli, samanber ríkisábyrgð sem veitt var tímabundið vegna ábyrgðartryggingar á flugflota landsmanna.``

Herra forseti. Þetta var einmitt einn af okkar fyrirvörum, þ.e. að mikilvægt væri að skoða hvernig takmarka mætti þessa áhættu almennings af fjármögnun verkefna sem þessara, svo sem með stofnun sérstakra fyrirtækja ef um er að ræða ríkisfyrirtæki sem fer út í stórar framkvæmdir. Það hefur verið lenska hér að veita ríkisábyrgðir á býsna margt. Það er auðvitað að hluta til vegna smæðar hins íslenska markaðar sem atbeina ríkisins hefur þurft við og vegna smæðar íslenskra fyrirtækja almennt. Og mönnum hefur fundist það vera eðlilegt ef rýmka mætti aðstöðu fyrirtækjanna og lækka fyrir þeim vexti að veita ríkisábyrgð, enda greiddu þau þá ákveðið gjald fyrir slík hlunnindi. En eins og ég sagði, herra forseti, ég hygg að dagar ríkisábyrgða fari mjög að styttast nema í alveg sérstökum tilfellum.

En það var ekki bara, herra forseti, að við værum með fyrirvara varðandi þessi atriði heldur urðum við mjög vör við það í umfjöllun málsins hve átakanlega skortir á að til sé heildstæð auðlindastefna. Ef farið er í gegnum þau lög og þau frv. sem ýmist liggja fyrir Alþingi eða kynnt hafa verið og borin er saman sú auðlindastefna sem þar birtist þá má segja að þar sé hver höndin upp á móti annarri. Ég ætla að taka dæmi, herra forseti, annars vegar af orkunni og hins vegar af sjónum.

Það hefur þótt sjálfsagt mál hingað til að ríkisvaldið, hið opinbera greiddi fyrir allar rannsóknir sem gerðar eru vegna sjávarútvegs, þannig hefur það verið og þannig er það enn þá. Á sama tíma hefur það þótt jafnsjálfsagt að orkufyrirtækin greiddu fyrir allar rannsóknir sem farið er í vegna orkuöflunar og þetta eru býsna háar upphæðir. Veittir hafa verið styrkir, sveitarfélög eða fyrirtæki eru að fá styrki vegna hitaveiturannsókna. Þeir eru afturkræfir ef árangur næst, það er sem sagt gert ráð fyrir að fyrirtækin greiði rannsóknir sínar að fullu. Þannig er það í orkugeiranum.

Hins vegar hefur ekki enn þá verið farið fram á að fyrirtæki í orkugeiranum greiddu fyrir afnot af landi. Ekki hefur verið farið fram á að þau greiddu fyrir nýtingu auðlindanna, hvorki afnot af landi né afnot af vatni eða annað. Það er hins vegar sú stefna sem er smám saman að birtast í öðrum frv. af hálfu ríkisstjórnarinnar, þ.e. að tekið sé ákveðið gjald vegna þess að menn fái að nýta land eða landgæði með einum eða öðrum hætti.

Þarna er auðvitað, herra forseti, um mikið ósamræmi að ræða og í rauninni mjög slæmt að þurfa að vinna undir þeim kringumstæðum, vinna sig í gegnum hvert lagafrv. á fætur öðru, ef svo má að orði komast, og verða sífellt var við það að engin samræmd stefna virðist vera til.

Nú síðast vorum við að fjalla um, og munum fjalla um síðar á þessum fundi ef umræðu lýkur í tæka tíð, frv. um eldi sjávarfiska. Þar er um að ræða allnokkra nýtingu á sameiginlegri auðlind. En þar á hvorki að krefjast gjalda fyrir útgáfu á leyfi né heldur er fjallað um það hvernig bregðast eigi við því ef fleiri en einn aðili vilja nýta ákjósanlegan fjörð til eldis né heldur virðist eiga að vera gjaldtaka fyrir slíka nýtingu, enda þótt menn viti að slík gjaldtaka er viðhöfð annars staðar og þykir sjálfsögð. Það eina sem á að taka gjald fyrir í þessu tilfelli er eftirlitið.

[16:00]

Það er kannski líka eins gott í því tilfelli, herra forseti, en ég mun ræða það betur undir því máli því að þar eru menn að koma á tvöföldu eftirlitskerfi sem verður ugglaust mjög dýrt, og fyrir liggur að það verði mjög dýrt fyrir eldisfyrirtækin. Það er forkastanlegt að ríkisstjórnin fari að skemmta sér við að skipta upp eldinu milli tveggja ráðuneyta svo að hver geti haft sitt, og virðist þá ekki skipta ríkisstjórnina nokkru hvort mikill kostnaður eða lítill fylgir. En það ræðum við þegar kemur að því frv. sem er, eins og ég segi, á dagskrá þessa fundar en er kannski einmitt eitt af dæmunum um það hve út og suður auðlindapólitík ríkisstjórnarinnar er, og e.t.v. væri réttast að kalla hana enga. Stundum er sem sagt gert ráð fyrir því að fyrirtækin greiði fyrir rannsóknir, stundum eiga þau að greiða fyrir land, stundum leyfi en engin heildstæð stefna er til.

Fyrir nokkrum árum kaus Alþingi auðlindanefnd sem var falið að móta auðlindastefnu, og það gerði nefndin. Stjórnvöld virðast hins vegar ekki hafa haft nokkurn áhuga á þeirri stefnu sem þar var mótuð. Það eina sem stjórnvöld virðast hafa áhuga á er að pilla einstaka orð eða setningar, helst úr samhengi teknar, og nýta málflutningi sínum til framdráttar í einstöku tilfellum.

Herra forseti. Ég er að ræða um auðlindastefnu og af því að það er nauðsynlegt í umfjöllun um þetta mál ætla ég að rifja upp hver grundvallartillaga auðlindanefndarinnar var. Hún var um það að nýr eignarréttur yrði til, svokölluð þjóðareign. Samkvæmt löggjöf okkar á ríkið sumt, þjóðlendur og annað slíkt, en þjóðin á hins vegar annað eins og Þingvelli, það er tekið fram í lögum. Jafnframt kemur fram í lögum, eins og í lögum um stjórn fiskveiða, að fiskstofnarnir kringum landið séu þjóðareign eða sameign þjóðarinnar. Og segja má, herra forseti, að þó að eitthvað sé sameign þjóðarinnar hefur það mjög hæpna eða enga lagalega merkingu. Til þess að breyta því og gera þá ljóst að það sem þjóðin á hefði lagalega merkingu yrði búinn til þessi eignarréttur, ,,þjóðareign``, sem stæði andspænis því sem heitir einkaeign og eignarréttarlöggjöf okkar gengur út frá.

Til þess að þetta gæti gerst var gerð tillaga að stjórnarskrárákvæði, ákvæði sem kæmi í VII. kafla stjórnarskrárinnar, og þar yrðu náttúruauðlindir, sem ekki væru háðar einkaeignarrétti, lýstar þjóðareign. Tillagan var að þetta ákvæði yrði svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila.`` --- Má ekki selja eða láta varanlega af hendi, ég endurtek það. --- ,,Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.``

Herra forseti. Með þessu ákvæði væri búið að leggja grunn að auðlindapólitík ef menn á hinu háa Alþingi hefðu á því nægan áhuga. Ég hef við gefin tækifæri hamrað á mikilvægi þess að menn samræmdu auðlindapólitíkina, eða að hún yrði yfir höfuð til, vegna þess að mér finnst ekki vansalaust fyrir nokkra þjóð að ganga svo hirðuleysislega um löggjöfina, síst af öllu þjóð sem byggir efnahagslíf sitt að svo stórum hluta á nýtingu náttúruauðlinda eins og Íslendingar gera. Ef tala má í viðtengingarhætti hefði ég viljað vera að vinna með þetta mál undir allt öðrum kringumstæðum, þ.e. ég hefði viljað hafa hér auðlindapólitík til að vinna eftir. Ég hefði viljað að þeir mælikvarðar sem nota á til þess að mæla efnahagslegt gildi lands væru til svo að við gætum gert það. Og e.t.v., herra forseti, verður einn góðan veðurdag fólk á hinu háa Alþingi sem hefur þessa mælikvarða og löggjöf og getur þess vegna gengið til þeirra verka sem hér þarf að ganga til, og mun þurfa að ganga til á Íslandi sem er svo ríkt af náttúruauðlindum, og við munum ugglaust aldrei neita okkur um að nýta þær. Það fólk mun væntanlega hafa önnur tól og tæki í höndunum en við höfum í dag til að meta hvað er arðbært og getur þá lagt á það eðlilega mælikvarða og unnið eftir samræmdri auðlindapólitík þannig að fyrirtækjum væri ekki mismunað eftir því hvaða auðlind þau nýttu.

Herra forseti. Ég held að þetta sé nóg um auðlindapólitíkina í bili. Ég er þó tilbúin til að hafa þá ræðu mun lengri ef eftir því verður kallað.

En, herra forseti, eins og fram kom í upphafi ræðu minnar liggur fyrir og ég þarf ekki að fjölyrða um það að sú framkvæmd sem við tölum hér um, virkjun við Kárahnjúka, hefur í för með sér mikil áhrif á umhverfi. Þessi áhrif verður að vega á móti hinum þjóðhagslegu áhrifum, verður að vega á móti þeirri arðsemi sem menn gera sér vonir um að geti orðið af þessari framkvæmd og við höfum einnig viljað skoða hana í samræmi og samhengi við aðra landnýtingu norðan Vatnajökuls. Við, fulltrúar Samfylkingarinnar í iðnn., settum auk þess fram fyrirvara sem lúta að ríkisábyrgðum, sem við teljum að hljóti að verða að endurskoða í framtíðinni, og því hversu mikil vöntun er hér á auðlindastefnu, hversu ómögulegur stakkur Alþingi er í rauninni skorinn, að því skuli stillt upp frammi fyrir afgreiðslu löggjafar um nýtingu auðlinda, nokkur lagafrv. á hverjum þingvetri, án þess að nokkur heildstæð stefna sé til.

Ég gat þess líka, herra forseti, að það hlýtur að vera einn af fyrirvörum okkar að lögin um mat á umhverfisáhrifum verði skoðuð með tilliti til þess matsferlis sem fór í gang eftir að hæstv. umhvrh. tók matið til sín.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, geta þess sem fram kom í máli gesta hv. iðnn. og einnig í umsögn, en hér er um að ræða sveitarstjórn Norður-Héraðs, sem vakti athygli nefndarinnar á því að vegna ákvæða sveitarstjórnarlaga nyti aðeins eitt sveitarfélag tekna af virkjuninni. Og það sem ræður því, herra forseti, er staðsetning stöðvarhússins. Það sveitarfélag, í þessu tilfelli Norður-Hérað, sem leggur til land undir virkjun, land undir göng og vegi og annað sem óhjákvæmilega tengist virkjuninni og er forsenda hennar, nýtur hins vegar ekki beinna tekna með sama hætti og það sveitarfélag sem stöðvarhúsið er í.

Þarna er auðvitað um að ræða ákveðna skilgreiningu í lögum um tekjustofna sveitarfélaga en ég vildi ekki láta hjá líða að taka undir þessar ábendingar sveitarstjórnarinnar vegna þess að ég held að við séum flest sammála um að lögin, eins og þau eru núna, séu til trafala að ýmsu leyti. Meðan iðnn. var með málið til umfjöllunar fór m.a. fram sameiningarkosning sveitarfélaga í Rangárvallasýslu þar sem eitt sveitarfélagið, Ásahreppur, hafnaði sameiningu enda hafði það kannski þeirra hagsmuna að gæta að það hefur miklar tekjur af virkjunum. Og þar þurfa menn kannski ekki að hagræða eða leita leiða til að gera hlutina ódýrar og betur með sama hætti og hin sveitarfélögin.

Við þekkjum þessar virkjanaeyjar, ef má kalla það svo, í landslagi íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög sem telja sig svo rík að þau þurfi í rauninni vart við aðra að tala þó að þau þurfi kannski að benda íbúum sínum á að nýta alla þjónustu hjá aðliggjandi sveitarfélögum sem hafa hagað málum með öðrum hætti.

Ef í þessu tilfelli nákvæmlega væri um að ræða að bætur kæmu fyrir land með beinum hætti, ef auðlindapólitík okkar væri öðruvísi, hefði þessi kvörtun ekki komið frá sveitarstjórninni í Norður-Héraði. Vandamálið stendur samt eftir.

Nú er ég ekki að gera lítið úr þeirri þjónustu sem sveitarfélög þurfa að inna af hendi gagnvart þeim sem eru með fasteignir í sveitarfélaginu. En ég held að allir --- örugglega flestir --- hljóti að sjá að þarna er á ferðinni ákvæði sem hefur með ákveðnum hætti truflandi áhrif á þróun sveitarfélaganna í landinu sem mismunar að nokkru leyti, og sem væri æskilegt að hægt væri að ráða bót á. Ekki veit ég hvernig, ég hef ekki sjálf sett mig nákvæmlega inn í þetta mál, en hugsanlega væri hægt að skilgreina með öðrum hætti inni í tekjustofnalögum hvað það er sem greiða skal af. Einu sinni var til landsútsvar. Ég held að það hafi verið afnumið af því að það þótti kannski ekki nógu réttlátt heldur. En okkur, fulltrúum Samfylkingarinnar og meiri hlutanum sem skrifar þetta atriði líka í heild sinni í nál., finnst a.m.k. sem þarna sé nokkuð sem ástæða er til að skoða í tengslum við stórar framkvæmdir sem hið opinbera ræðst í. Hafa þessar framkvæmdir kannski önnur áhrif á þróun sveitarstjórnarmála en reiknað var með þegar af stað var farið?