Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:15:38 (6420)

2002-03-21 16:15:38# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:15]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þegar farið var í umræður um Fljótsdalsvirkjun var búið að samþykkja lög um mat á umhverfisáhrifum. Við vildum að farið yrði að þeim lögum. Með sama hætti væri staðan sú að ef við hefðum hér samræmda auðlindapólitík þá vildum við að þetta frv. yrði lagað að þeirri samræmdu auðlindapólitík. Ef við hefðum þessa mælikvarða um mat á landi og þeir væru viðurkenndir sem hluti af hefð okkar og löggjöf þá mundum við vilja að þeir væru notaðir. Þannig sýnist mér að ég hafi verið sjálfri mér samkvæm og Samfylkingin í þessum málum.

Ég talaði í viðtengingarhætti um þetta með auðlindapólitíkina vegna þess að ég harma í raun að þurfa að takast á við hvert frv. á fætur öðru, hvern þingveturinn á fætur öðrum, þar sem er engin auðlindapólitík eða út og suður. Það vill þannig til að ég er í þeim tveimur nefndum þingsins sem helst fjalla um þessi mál, þ.e. sjútvn. og iðnn. Ég verð því mjög vör við þessa vöntun á stefnu. En þó að hún væri fyrir hendi þá er ekki þar með sagt að Samfylkingin hefði hafnað framkvæmdinni. (Gripið fram í.) Hreint ekki. Ég harma eingöngu að okkur skuli hafa verið sett þessi vinnuskilyrði. Mér finnst sjálfsagt, í hvert einasta skipti sem ég þarf hér að ræða um frv. sem er því marki brennt að vera með enga auðlindapólitík en ætti að vera það, að ég veki á þessu sérstaka athygli. Það er af minni hálfu liður í að reyna að koma þessum málum áleiðis með sama hætti og mér fannst það vera liður í þeirri viðleitni minni að breyta viðhorfum fólks að fá til viðræðu við iðnn. þá fulltrúa sem kunna hugsanlega mest til verka hvað varðar mat á verðgildi lands. Þetta er uppeldishlutverk sem ég þykist reyna að sinna en ég held að það hafi ekki breytt neinu um niðurstöðu Samfylkingarinnar í þessu efni.