Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:25:14 (6425)

2002-03-21 16:25:14# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:25]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit alveg hvað þetta frv. snýst um en það breytir ekki því sem ég var að spyrja um þó að hv. þm. hafi átt erfitt með að skilja það. Það er reginmunur á því hvort hv. Alþingi stendur frammi fyrir gerðu umhverfismati við ákvarðanatöku og lagasetningu eða hvort leyfið er lagt í hendur framkvæmdarvaldinu með því fororði að það láti fara fram umhverfismat. Það er alveg tvennt ólík. Það er eftir því sem ég var að lýsa.

Það er auðvitað allt önnur staða að standa frammi fyrir því hér á hinu háa Alþingi að fram hafi farið umhverfismat áður en lög eru sett sem heimila framkvæmdarvaldinu að fara í hluti þó skilgreint sé í lögunum að það skuli fara fram umhverfismat. En það hefur ekki farið fram og þetta eru mjög mikil prinsippmál. Þetta varðar aðkomu þingsins að öllum málum, hvernig við afgreiðum hlutina til framkvæmdarvaldsins, hversu vel sem við treystum framkvæmdarvaldinu.

Það er allt önnur staða fyrir okkur að koma að málum ef búið er að ganga frá þessari grunnvinnu sem ég var að tala um. Hér er um allt annað að tefla og allt önnur vinnubrögð, hvort Alþingi kemur að því á þessum grunni með afgreidd mál og setur í hendur framkvæmdarvaldinu eða hvort framkvæmdarvaldinu er treyst fyrir því. Ég er ekki að segja að það eigi ekki að treysta framkvæmdarvaldinu. Ég tel hins vegar að Alþingi eigi að skapa sér þann sess --- það var minn dómur og skilningur minn á málflutningi margra samfylkingarmanna um þessi mál hér áður fyrr --- að menn vildu standa þannig að málum, m.a. með fyrir fram afgreiddri rammaáætlun.