Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:28:42 (6427)

2002-03-21 16:28:42# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, PHB
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:28]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga sem felur í sér heimild til Landsvirkjunar til að virkja við Kárahnjúka og enn fremur heimild til hæstv. iðnrh. að leyfa Landsvirkjun að stækka Kröfluvirkjun. Þessar heimildir tengjast að sjálfsögðu báðar fyrirhugaðri byggingu álvers við Reyðarfjörð. Ég vil undirstrika að hér er um að ræða heimildir.

Herra forseti. Í gær urðu mikil tíðindi. Hæstv. iðnrh. tilkynnti þinginu að Norsk Hydro, sem ætlaði að vera með í að byggja álver, gæti hugsanlega ekki staðið við þær dagsetningar sem um var rætt. Því olli ekki lök arðsemi framkvæmdanna, langt í frá, heldur hafði Norsk Hydro hugsanlega gleypt of stóran bita þegar það keypti Die Vereinigten Aluminiumwerke í Þýskalandi.

[16:30]

Eftir þau tíðindi urðu umræður á þingi þar sem margir þingmenn urðu afskaplega svartsýnir en aðrir, nokkrir, glöddust. Ég tel að hvorugir hafi haft ástæðu til. Ég er sannfærður um að álver rísi við Reyðarfjörð og það fyrr en síðar og mun ég færa hér rök fyrir því.

Herra forseti. Mikið hefur verið rætt um svokallaða koldíoxíðmengun og gróðurhúsaáhrif og þá kenningu sem felst í því að samhengi sé þar á milli. Sumir hafa reyndar talað um að sú kenning sé ekki rétt, að þetta séu frekar trúarbrögð. En ef við göngum út frá því sem allir umhverfissinnar vilja halda að sú kenning sé rétt, þá er raunveruleikinn sá að við búum á einum hnetti og á hverju ári þarf vegna aukinnar notkunar á áli að byggja eitt til tvö stór álver, hugsanlega upp í fjögur minni, einhvers staðar í heiminum. Þau álver eru öll eða nánast öll knúin með rafmagni eða nota rafmagn sem er myndað með brennslu jarðefna, olíu eða kola og það veldur gífurlegri koldíoxíðmengun. Önnur raforka er framleidd með kjarnorku sem þykir ekki gott heldur þannig að báðir þessir kostir, kjarnorkan og brennsluefnin, eru ekki góðir kostir að mati umhverfissinna. Þó að þróunarlöndin hafi núna leyfi í tíu ár í viðbót til að menga á þennan hátt og velflest álver muni verða reist þar, þá er þetta sami hnötturinn sem við öll búum á og sú mengun mun lesta enn frekar umhverfið. Ég sé því ekki annað en Kyoto-samkomulagið og eftirfarandi samkomulög sem gerð verði muni banna þetta, banna að þróunarríkin geti haldið áfram að menga með því að framleiða rafmagn með kjarnorku eða brennslu jarðefna. Þar af leiðandi munu verða settir á umhverfisskattar því að einhvern veginn verður að stoppa þetta og afleiðingin er sú að ekki verður eins mikið framboð á áli eftir þessi tíu ár sem þýðir að verðið mun hækka, ekki lækka til framtíðar. Ég get ekki séð hvernig verðið á að lækka næstu 20--30 árin ef raforkan sem er grunnefni eða grunnorka og grunnkostnaður við framleiðslu álsins hækkar í verði. Ég sé ekki annað en vegna þessara umhverfissjónarmiða muni álverð hækka en ekki lækka. Hvað þá lækka eins mikið og sumir umhverfissinnar láta í veðri vaka, eða um 1% á ári.

Þetta eru rökin fyrir því að þeir útreikningar sem gerðir hafa verið og Landsvirkjun hefur gert taka ekki mið af þessu. Þeir taka ekki mið af því að koldíoxíðumræðan muni banna álver í þróunarlöndunum þannig að jafnvel sú forsenda sem hv. iðnn. fékk að kynna sér, sem sýnir að mjög góð arðsemi er af þessari virkjun og álveri, jafnvel sú forsenda er of veik. Það verður sennilega meiri arðsemi af þessu vegna þess að orkuverðið er háð álverðinu beint.

Herra forseti. En það er fleira sem kemur til. Miklar rannsóknir hafa farið fram, búið er að ljúka miklum rannsóknum. Búið er að fara í umhverfismat og afla lagaheimilda þegar frv. er komið í gegn. Búið er að grunnhanna bæði virkjunina og álverið. Þarna er búið að búa til tækifæri fyrir fjárfesta, fyrir þá sem vilja framleiða ál, fullkominn pakka og það er ekki lítils virði. Sá pakki er einn sér mjög mikils virði núna á þessu augnabliki. Ef Norsk Hydro telur sér ekki fært, vegna þess að þeir hafa tekið of stórt upp í sig í Þýskalandi, að vera með í þessum leik, þá er sjálfsagt að bjóða öðrum. Ég hugsa að þegar menn fara að átta sig á því að tíminn sem þróunarlöndin hafa til að framleiða ódýrt rafmagn með koldíoxíðmengun, sá tími líður og hann verður búinn eftir tíu ár, og þá munu menn, margir hverjir, sem framleiða ál vilja hoppa á þennan kost. Ég fullyrði því að þetta álver verður reist.

Fram kom hjá hv. iðnn. að álverið sýni mjög góða arðsemi. Fengin voru álit óháðra aðila sem beittu þar mjög skynsamlegum aðferðum, Monte Carlo-aðferðum til þess að meta arðsemina og niðurstaða þeirra var sú sama og Landsvirkjun hafði sýnt. (ÁSJ: Er það ekki fjárhættuspil?) Jú, vissulega er það fjárhættuspil, en það er hægt að nota til að sýna fram á ákveðnar líkur með því að nota það nógu oft og víða. (ÁSJ: Með teningum eða á líkum?) Það er gert með teningum eða í tölvu reyndar. En þetta eru mjög viðurkenndar aðferðir og hv. þm. getur kynnt sér þær.

Einnig hefur verið sagt að jafnmikil áhætta sé í álverinu og í raforkuverinu. Það er ekki rétt. Ég sé alveg fyrir mér raforkuver án álvers, en ég sé ekki fyrir mér álver í Reyðarfirði án raforkuvers þannig að ef álverið skyldi detta út sem náttúrlega eru alltaf pínulitlar líkur á, það verði gjaldþrota, þá getur raforkuverið sem dugar í 100 ár selt raforku sína eitthvað annað, það tekur kannski einhver ár að selja það en það mun gerast. Áhættan í raforkuverinu er því miklu minni en í álverinu.

Herra forseti. Nokkuð hefur verið rætt um þanþol efnahagslífsins en á það var bent að hér er ekki um meira þanþol að ræða en þegar Búrfell var byggt, auk þess sem við búum núna við frjálsa flutninga fólks og fjármagns þannig að við erum miklu betur undir það búin að mæta slíku þanþoli eða taka á slíku höggi en við vorum áður. Að sjálfsögðu er okkur í lófa lagið að hægja t.d. á vegaframkvæmdum meðan á framkvæmdum stendur, meðan kúfurinn er sem mestur.

Það er eitt sem ég hef á móti þessu og það er að hér er um að ræða ríkisvæðingu. Það er ríkið sem er að byggja þarna eða fyrirtæki í eigu ríkisins og sveitarfélaga, opinberir aðilar, og ég er ekki ánægður með það. Ég legg til að menn skoði í alvöru að selja Landsvirkjun eða kljúfa hana upp í tvennt. Ég tel nefnilega að þessi virkjun sé svo arðsöm að hún ein sér mundi fá lága vexti á fjármagnsmörkuðum eins og íslenska ríkið.

Nokkuð hefur verið rætt um það að þessi virkjun mundi viðskiptahalla. Það er hárrétt. Flytja þarf inn mikið af tækjum og tólum og hverfla og annað slíkt sem veldur viðskiptahalla. En að mínu mati er það góður viðskiptahalli vegna þess að sú framkvæmd sem farið er í skilar góðum arði og borgar sig til baka og minnkar viðskiptahallann eftir að hún er komin í gagnið. Það er reginmunur á þessum viðskiptahalla og þeim halla sem hefur farið t.d. til jeppakaupa og til ferðalaga sem ekki skila arði seinna meir.

Herra forseti. Hv. þm. Vinstri grænna leggja til að stöðva þetta frv. og maður kynni að halda að það sé gert af tillitssemi við Norsk Hydro. Maður kynni að halda það vegna þess að þá þarf Norsk Hydro ekki að biðja um frestun á framkvæmdum. Þá geti þeir vísað til þess að ekki sé búið að uppfylla okkar skilyrði. Ég tel að við Íslendingar eigum ekki að vera svona tillitssamir við Norsk Hydro af því að þeir þurfa þess ekki við. Við eigum að gæta okkur á því að láta ekkert upp á okkur klaga og keyra frv. í gegn þannig að við séum tilbúin líka fyrir aðra aðila sem kynnu að koma inn.

Þessi framkvæmd er afskaplega mikilvæg fyrir Austfirðinga og þeir eru orðnir langþreyttir á frestunum og loforðum. Mér finnst það ábyrgðarhluti ef hv. Alþingi ætlar að fara að fresta þessari framkvæmd og auka enn meira á angur þeirra. Og sú umræða sem var hér í gær var mjög ábyrgðarlaus gagnvart Austfirðingum. Ég vil fullvissa þá um að ég er á þeirri skoðun að álverið verði reist og það fyrr en seinna.

Herra forseti. Nokkrir umhverfissinnar hafa tekið ástfóstri við hugtakið ósnortin víðerni og ætla að nota það sem ferðamannabeitu. En það liggur í augum uppi að um leið og fyrsti ferðamaðurinn stígur fæti á ósnortin víðerni þá eru þau ekki lengur ósnortin. Og það merkilega er að ferðamannaiðnaðurinn mengar sennilega meira en áliðnaðurinn. Ef við förum í gegnum það, sjónmengunin, hávaðamengunin, rútur út um allt og jeppar og svo flug og síðan að sjálfsögðu öll koldíoxíðmengunin sem felst í því að koma þessu fólki á staðinn þá hugsa ég að ferðamannaiðnaðurinn mengi meira en áliðnaðurinn. Ef við berum saman þessar tvær atvinnugreinar, aðra sem starfar í fjóra mánuði á ári og er óskapleg áhætta, og hina sem starfar tólf mánuði á ári, alltaf, á vöktum, ég ætla ekki að lýsa því hvað þetta er miklu öruggari atvinnugrein og greiðir miklu hærri laun. Það eru lág laun í ferðamannaiðnaðinum, mikið af útlendingum sem starfa þar á töxtum. Fyrirtækin sem starfa í áliðnaði eru með hæstu skattgreiðendum í landinu á meðan hin eru öll á horriminni og alltaf gjaldþrotasögur af ferðamannaiðnaðinum. Ég ætla ekki að segja hvað ég tel miklu betra að fara út í áliðnað en ferðamannaiðnað og í áliðnaði er miklu minni mengun. Og alveg sérstaklega í þessu dæmi þar sem öll mannvirkin eru meira og minna neðan jarðar, við sjáum ekki göngin, við sjáum ekki virkjunarhúsið, þetta er allt saman neðan jarðar. Engin sjónmengun af því.

Herra forseti. Mikið hefur verið talað um að eitthvert óskaplega heilagt land fari undir vatn og það sé mikill sjónarsviptir að því. Það er nú þannig málum vaxið að ég hugsa að fæstir Íslendingar hafi yfirleitt barið þetta landsvæði augum eða hafi yfirleitt séð þessa óskaplegu fegurð. Þegar ég var þarna ferðinni fannst mér þetta allt vera ein eyðimörk þannig að mér er ekki sárt um þetta land, vissulega ekki. Það er margt annað sem mér er sárara um, t.d. umhverfi Reykjavíkur þar sem þessir umhverfissinnar búa, þar sem búið er að skemma alla ströndina í kringum Reykjavík með sjóvarnagörðum. Þá er ekki sagt múkk. En ef á að hreyfa stein austur á landi, þá verður allt vitlaust. Sem sagt: Það á að vera umhverfisstefna þar sem ég bý ekki. Þannig er stefnan.

Síðan vil ég benda á að hér á landi verða eldgos á fimm ára fresti og þau eldgos valda miklu meiri umhverfisspjöllum en þetta. Ég vil benda á að þarna var einu sinni lón og hafði þá enginn virkjað það.

Herra forseti. Mikill einhugur er um þessa framkvæmd og þessa afgreiðslu. Átta nefndarmenn í hv. iðnn. skrifuðu undir, reyndar tveir með fyrirvara. Það er því mikill einhugur nema hjá hv. þm. Vinstri grænna. En svo vill til að sumir vinstri grænir eru grænir og hinir eru vinstri. Það er eiginlega enginn þeirra bæði vinstri og grænn. Og það kemur að því að menn fara að velta því fyrir sér hvenær þeir þurfi að ákveða hvort þeir eru vinstri eða grænir. T.d. hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson lagt aðaláhersluna á arðsemina. Sem sagt, ef hann kæmist að því að arðsemin yrði dúndurgóð, hann vildi nú ekki kynna sér það sem formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, kannski vegna þess að hann óttaðist að komast í kynni við að þetta væri góð arðsemi. En segjum að hann kæmist að því að þetta væri mjög góð arðsemi, þá mundi hann virkja, setja allt á bólakaf í vatn, skipti engu máli. Hann væri þá ekki að spyrja hversu mikið hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir liði fyrir það af því að hún er græn en hann er rauður. Það er nefnilega þannig að sumir hv. þm. Vinstri grænna eru vinstri og aðrir eru grænir. Mér þætti gaman að sjá þann sem er bæði vinstri og grænn.

Herra forseti. Góð lífskjör eru ekki sjálfsögð. Þau byggja á mjög tæknivæddri útgerð og notkun á orku. Það er mjög lítill hluti af íslenskri orku nýttur og mér finnst það vera siðferðisleg og umhverfisleg skylda Íslendinga við allt mannkynið að virkja meira og nýta þá orku og njóta sjálfir þeirra auðlinda sem hér eru til, og alveg sérstaklega ef þessi svokallaða koldíoxíðmengunarkenning er rétt.