Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:47:21 (6429)

2002-03-21 16:47:21# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:47]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Fyrst að fegurð Austurlands. Hún breytist ekki nokkurn skapaðan hlut. (Gripið fram í: Ha?) Þessi virkjun er neðan jarðar og göngin eru neðan jarðar þannig að fegurðin breytist ekki neitt nema kannski reyndar sem nemur línunni frá stöðvarhúsinu og í Reyðarfjörð. (ÖJ: Hefur stíflan ...?) Stíflan er norðan Vatnajökuls. Hún er ekki á Austfjörðum þannig að landslag þeirra breytist ekki mikið við hana. Auk þess sagði ég að landslagið sem þarna er um að ræða væri afskaplega nakið og eyðimerkurlegt þannig að ég sé ekki að mikil fegurð tapist.

Varðandi ábyrgðir. Eftir að hafa skoðað þetta dæmi sýnist mér að það sé svo arðsamt, eins og ég gat um, að það gæti staðið eitt sér og fengið vexti sem ekki væru miklu hærri en þeir vextir sem ríkið er að borga og tekur fyrir ríkisábyrgðir.

Þetta er nákvæmlega sama dæmið og varð uppi á teningnum þegar til stóð að einkavæða Fiskveiðasjóð og hann var settur inn í FBA. Þá heyrðum við miklar sögur af því að það yrði hrun af því að allir lánveitendur mundu segja upp lánunum. Það gerðist ekki neitt. Það eina sem gerðist var að menn tímdu ekki að borga 0,25% ríkisábyrgðargjald og borguðu bara upp þessi lán og fengu ný án ríkisábyrgðar með færri punktum en 25.

Þessi saga um að ríkisábyrgð sé svo feiknarlega mikilvæg er ekki rétt. Ég er alveg sannfærður um að þetta verkefni gæti staðið eitt sér og ég mundi gjarnan vilja að ríkisvaldið mundi hreinlega bjóða út þessa orku og þessa virkjun til þeirra sem mundu vilja virkja.