Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:49:14 (6430)

2002-03-21 16:49:14# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:49]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að taka mig á og taka þessa umræðu alvarlega. Ég ætla að reyna að gera það þótt það sé svolítið erfitt.

Við erum að tala um virkjun sem væntanlega ætlar að selja eina afurð. Afurðin er orka. Nú hefur komið á daginn að kaupandi að þessari orku er ekki í hendi. Það sem við vorum að ræða fram til þessa í þessu máli, orkuverðið, er núna í fullkominni óvissu. Samt kemur hv. þm. Pétur H. Blöndal í ræðustól og fullyrðir um arðsemi virkjunarinnar án þess að kaupandi sé að orkunni og þar af leiðandi án þess að nokkrar upplýsingar liggi fyrir um orkuverðið.

Staðreyndin er sú að ef orkuverðið væri himinhátt yrði þetta að sjálfsögðu arðsöm framkvæmd. Ef það væri lágt yrði tap á henni. Og þeir sem hafa verið að skoða arðsemisútreikninga, álverðið o.s.frv., hafa um það miklar efasemdir að af þessu geti orðið arður enda er staðreyndin sú að Norsk Hydro, sem upphaflega átti að koma inn í fjármögnun virkjunarinnar, hvarf frá þeirri ráðagerð þegar farið var að skoða málin.

En látum þetta allt til hliðar. Látum allt til hliðar um álverið. Þá getur hv. þm. ekki leyft sér að koma hingað í ræðustól með fullyrðingar á borð við þær sem hann bar hér fram fyrir Alþingi um arðsemi virkjunar sem hefur ekki einu sinni öruggan kaupanda að afurðinni. Hvernig í ósköpunum kemst hann að þessari niðurstöðu á annan hátt en að byggja á óskhyggju og trú? Þannig getur Alþingi Íslendinga ekki leyft sér að koma fram í þessu máli, og reyndar engu máli. (Forseti hringir.)

Nú fer ég að skilja hvers vegna hv. þm. hefur svona litla trú á ríkisvaldinu fyrst hann axlar ekki ábyrgð á ábyrgari hátt en þetta.