Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:55:07 (6433)

2002-03-21 16:55:07# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:55]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ja, nú varð ég hissa. Hv. þm. talaði um af hverju ég vildi ekki bíða með málið. En ég veit ekki betur en að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í hv. iðnn., hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, hafi lagt fram tillögu til rökstuddrar dagskrár um að vísa málinu frá. Það er tillaga --- ég reikna með að hún sé Vinstri grænna --- um að vísa málinu frá, hætta við það. Það eru skilaboðin til Austfirðinga. Það eru skilaboðin sem hv. þm. Vinstri grænna senda Austfirðingum. Þeir ætla ekki að fresta þessu fram yfir helgi. Nei, þeir vilja vísa málinu frá og bara taka það upp á næsta þingi, þarnæsta þingi, um næstu aldamót eða einhvern tíma.

Þeir ætla kannski að breyta Austurlandi í ósnortið víðerni.