Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 17:18:27 (6438)

2002-03-21 17:18:27# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, Frsm. meiri hluta HGJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[17:18]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Helga Guðrún Jónasdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út frá sjónarhorni hv. þm. á málið má vissulega taka undir ýmislegt sem fram kom í máli hans. Hitt er svo annað mál að ég er ekki alls kostar sammála því hvernig hann leggur þetta mál á borð. Í fyrsta lagi mætti við fyrstu sýn ætla að hér væri um einhverja hrikalega tvískiptingu að ræða. En svo er ekki. Í frv. er gert ráð fyrir svokallaðri fiskeldisnefnd sem er ætlað að þætta þessa tvo þætti saman, annars vegar þann þátt sem fellur undir sjútvrn. og hinn sem fellur undir landbrn. Frv. gerir því ráð fyrir aðgerð til að sameina þessa tvo þætti á einum samráðsvettvangi.

Ég vek líka athygli hæstv. ráðherra á því að í fiskeldismálum býr þessi þjóð við ákveðna fortíð sem við verðum að horfast í augu við, fortíð sem felur það í sér að á níunda áratugnum var farið út í fiskeldi í þó nokkuð stórum stíl í hinum dreifðu byggðum. Atvik háttuðu því þannig til að það var gert undir forustu landbrn. Í dag blasir þessi veröld allt öðruvísi við. Það eru fyrst og fremst heildarhagsmunir útgerðarinnar sem eru í húfi. En það væri óábyrgt að ætla sér að stokka allt upp á skömmum tíma með tilliti til þess hlutar sem liggur í landbúnaðinum að því að þetta er viðkvæmur atvinnuvegur. Menn verða að stíga gætilega til jarðar í þessum efnum eins og hv. þm. eflaust veit.