Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 17:20:33 (6439)

2002-03-21 17:20:33# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[17:20]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta síðasta sem hv. þm. sagði veldur mér undrun vegna þess að ég get ekki séð neina ástæðu til að halda að það verði eingöngu útgerðir sem hafi áhuga á því að ala fisk í kringum Ísland. Þær hafa a.m.k. engan einkarétt á því fyrirbrigði að mínu viti. Það þarf engan kvóta, það þarf engin skip eða vera yfirleitt í útgerð til að reka fiskeldisstöðvar á Íslandi. Ef það er þrýstingur frá einhverjum útgerðarmönnum þá er það þrýstingur fyrirtækja. Sá þrýstingur kemur bara af slíkum ástæðum en ekki vegna þess að útgerðarmenn eigi að hafa nokkurn forgang að þessum atvinnuvegi.

Síðan er hitt atriðið, hæstv. forseti, þ.e. að ekki sé um tvískiptingu að ræða vegna þess að fiskeldisnefnd sé til. Mér finnast engin rök í því vegna þess að fiskeldisnefnd er bara hattur þarna yfir og getur auðvitað gert gagn. Ég ætla ekki að draga úr því. Úr því að menn kjósa að hafa þetta í tvennu lagi og búa til tvöfalt apparat er sjálfsagt gagn að því að hafa einhverja nefnd yfir öllu saman. En það dregur ekkert úr óhagræðinu og kemur ekki í veg fyrir það að t.d. fisksjúkdómanefnd telji að ákveðin vandamál skapist vegna þessarar tvískiptingar, vegna þess að eftirlitið sé tvöfalt og af því að tveir aðilar eigi jafnvel að bera ábyrgð á eftirliti hjá sama aðilanum og tveir aðilar eigi sjá um eftirlit í sama firðinum o.s.frv.

Að mínu viti eru það ekki rök í málinu að fiskeldisnefnd sé til staðar. Ég vona satt að segja að fram komi sterkari rök en þau sem hafa komið fram til þessa.