Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 17:40:09 (6445)

2002-03-21 17:40:09# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[17:40]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að enn skorti rök fyrir því að vera með tvöfalt eftirlit með fiskeldi á Íslandi. Í sjálfu sér er ég ekki að halda því fram, og við gerum það ekki, að það eigi endilega að vera í landbrn. En það verður auðvitað að gera þá kröfu til ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna þegar komið er með tillögur af þessu tagi að þær séu þá byggðar á skynsamlegustu hugmyndunum sem menn hafa. Það kom fram í nefndinni í umfjöllun um málið að menn voru sammála um að ekki væri skynsamlegt að kljúfa þetta í sundur og vera með tvö apparöt til þess að fylgjast með þessu.

Mér finnst að hæstv. ráðherra hafi illa tekist að rökstyðja að þetta þurfi að vera svona og að nokkur skynsemi sé yfirleitt í því. Mér finnst hins vegar að áfram bóli á því að þarna sé um að ræða togstreitu, pólitíska togstreitu sem mönnum hefur ekki tekist að leysa.