Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 17:48:36 (6453)

2002-03-21 17:48:36# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[17:48]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Þannig var að ég ritaði undir nál. meiri hluta sjútvn. með fyrirvara sem byggist einmitt á því máli sem hér er tekist á um. Vegna þess að í umsögnum Hafrannsóknastofnunar, Veiðimálastofnunar og fisksjúkdómanefndar kemur fram að ekki er togstreita á milli þessara aðila, heldur eru þeir allir sammála um það sem ég er sammála líka, að það sé eðlilegt eins og segir hér, með leyfi forseta:

,,Fisksjúkdómanefnd er á einu máli um að til lengri tíma litið sé æskilegt að ein löggjöf gildi um fiskeldi í landinu og telur ekki heppilegt að kljúfa forræði eldisgreinarinnar til tveggja ráðuneyta, háð því hvaða tegund er alin hverju sinni.``

Ég er alveg sammála því. Þó að við viljum forðast allar deilur milli ráðuneyta, þá er samt svo komið að við þurfum að takast á við þetta mál og finna heimilisfang fyrir þessa væntanlega miklu atvinnugrein, búgrein, á einum stað. Ég er þeirrar skoðunar að þetta eigi heima undir sjútvrn. og þó svo um það sé talað að mikil reynsla sé í landbrn., þá er mjög auðvelt að flytja hana á milli.