Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 17:49:51 (6454)

2002-03-21 17:49:51# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[17:49]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég hef sagt má færa mjög gild rök fyrir skoðun hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar og eins og ég nefndi í ræðu minni hafa mjög margir, alveg frá því fiskeldið eða eldi laxfiska fór á skrið hér á landi, verið þeirrar skoðunar að það ætti á þessum forsendum að heyra undir sjútvrn. En ég held að einnig séu gildar ástæður fyrir því að hafa skiptinguna eins og hún er í dag og það eigi alls ekki að vera okkur til trafala, jafnvel þótt einstakir embættismenn eða forstöðumenn einstakra stofnana telji að málunum sé best fyrir komið hjá þeim, þá er það auðvitað okkar stjórnmálamannanna að gæta þess að ekki sé um einhverja togstreitu að ræða sem trufli það að við getum þróað atvinnugreinina á eðlilegan og skynsamlegan hátt.