Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 18:14:34 (6457)

2002-03-21 18:14:34# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[18:14]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nú verið að reyna að eyða áhyggjum hv. þingmanna af þessu máli. En það virðist greinilega vera um einhvern misskilning að ræða hjá embættismönnum landbrn. sem komu fyrir nefndina og í álitum þeirra. Auðvitað gera hv. þm. sér grein fyrir því að veiðimálastjóri situr í fisksjúkdómanefnd og dýralæknir fisksjúkdóma er starfsmaður yfirdýralæknis sem á sæti í fisksjúkdómanefnd og dýralæknir fisksjúkdóma er samvæmt lögum ráðgjafi fisksjúkdómanefndar. Því er ekkert skrýtið þó að samræmi sé í því sem kemur fram í álitum þeirra þriggja aðila sem hv. þm. vitnaði til. Hún vitnaði til 68. gr. lax- og silungsveiðilaganna þar sem segir:

,,Eldi annarra lagardýra í kvía- og strandeldi skal hlíta sömu reglum og eldi vatnafiska eftir því sem unnt er.``

Þetta ákvæði var sett inn í lögin 1994. Þá átti ég sæti í landbn. sem auðvitað fjallaði um málið. Þetta var sett inn sem varnagli vegna þess að þá var lítið um eldi sjávardýra og ekki hafði verið talið nauðsynlegt að setja um það sérstakar reglur vegna þess að umsvifin voru ekki nægjanlega mikil. En málefni nytjastofna sjávar, hvort sem um eldi er að ræða eða annað, hafa alltaf fallið undir sjútvrn. Það hefur aldrei verið nein deila við landbrn. um það.

Hins vegar má segja að gjaldtaka af þessu hljóti auðvitað að koma til álita. En ég held að við ættum aðeins að fara varlega í þær sakir. Við eigum að sjá hvernig þetta þróast. Það er ekkert víst að um svo mikinn gróðaatvinnuveg sé að ræða að hann þoli mikla gjaldtöku jafnvel þótt atvinnugreinin í Noregi þoli það.

Herra forseti. Varðandi það síðan að hæstv. ráðherra ætti bara að bíða og málið ætti bara að liggja þá er það ekki ráðherrann sem þarf að bíða heldur bíður atvinnugreinin eftir því að einhver rammi sé settur utan um starfsemina.