Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 18:37:23 (6463)

2002-03-21 18:37:23# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[18:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er í raun ekki að halda því fram að þetta sé óskýrt. Ég held að það sé, eins og ráðherra fór hér yfir það áðan, skiljanlegt þeim sem setja sig inn í hvernig þetta er, þ.e. hvernig þetta krossast og skarast. Vatnafiskar úti í sjó heyra undir landbrh., sjávarfiskar uppi á landi heyra undir sjútvrh. Þeir eru því þarna hvor á annars yfirráðasvæði ef svo má að orði komast, þegar þannig vill til.

En þar með er þetta strax orðið pínulítið grautarlegt. Eftir stendur þessi vandi að búgreinin, atvinnugreinin sem slík, er klofin milli tveggja ráðuneyta. Hún á sér ekki lögheimili, hún á sér ekki samastað í einu fagráðuneyti með sama hætti og við viljum gjarnan að atvinnugreinar geri. Ég held nú að það eigi yfirleitt við nema þá í þessu tilviki.

Ég ætla bara að segja að lokum, herra forseti, að ég hef ekki tíma til að taka lengur þátt í þessum umræðum. Ég ætla bara að vona vegna þeirra ráðherranna að þessar tegundir í vatni og sjó tímgist ekki innbyrðis þannig að úr verði kynblendingar. Hvernig ætla þeir þá að leysa málið?