Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 18:49:07 (6466)

2002-03-21 18:49:07# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[18:49]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég hef áður sagt þá er sá kostur sem hv. þm. nefndi sá lakasti af þeim þremur sem uppi hafa verið í þessum efnum. Í þeim löndum þar sem bæði landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti eru til staðar þá veit ég ekki til þess að fiskeldið heyri undir landbrn. Þá heyrir það undir sjútvrn. Hins vegar er það svo víða að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytin eru í einu og sama ráðuneytinu. Það reyndar færist frekar í vöxt. En þá virðist mér að fiskeldið tengist miklu meira þeim hluta ráðuneytisins og þeim stofnunum þess sem tengjast sjávarútveginum frekar en þeim hluta sem tengist landbúnaðinum. Þó að í hugmyndafræðinni megi tengja þetta eins og hv. þm. gerir við landbúnaðinn að þá gerist það ekki í praxís.

Undir þeim kringumstæðum að landbúnaður og sjávarútvegur eru í sama ráðuneytinu þá er tengingin við dýralæknakerfið auðvitað einfaldari. En það á ekkert að vefjast fyrir okkur á Íslandi og að því höfum við hæstv. landbrh. verið að vinna, bæði með fiskeldisnefndinni og í öðrum málum sem þessu tengjast, að koma í veg fyrir að truflanir verði. Eins og ég hef áður nefnt í þessari umræðu þá hjálpar skiptingin eins og hún er núna okkur til við að leysa önnur vandamál. Því held ég að engin ástæða sé til þess að breyta þeirri skiptingu sem verið hefur á milli ráðuneyta innan Stjórnarráðsins með þetta eins og ég lýsti áðan og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon staðfesti að lýsingin á því hvernig þróunin hefði verið var rétt hjá mér.